Vissu ekkert fyrr en þau sáu skilti

Frá framkvæmdasvæði á Bústaðavegi. Þar hafa framkvæmdir nú verið stöðvaðar.
Frá framkvæmdasvæði á Bústaðavegi. Þar hafa framkvæmdir nú verið stöðvaðar. mbl.is/Árni Sæberg

„Við vissum ekki til þess að framkvæmdir stæðu til og vorum því undrandi þegar við sáum skilti fyrir vegaframkvæmdir nánast í bakgarðinum hjá okkur. Þegar við fórum að grennslast fyrir um málið þá fengum við að vita að færa átti umferðina nær húsunum okkar.“ Þetta segir Viðar Friðriksson, íbúi í Birkihlíð 42 í Reykjavík, en hann er meðal íbúa sem kærðu ákvörðun um veitingu framkvæmdaleyfis á Bústaðavegi.

Framkvæmdin sem um ræðir er lenging fráreinar og breikkun ramps við Bústaðaveg, sem liggur niður á Kringlumýrarbraut. Úrskurðarnefnd umhverfi- og auðlindamála tók málið til meðferðar og felldi ákvörðun um framkvæmdaleyfið úr gildi sem birt var í síðustu viku. Ástæða þess að framkvæmdin var ekki kynnt íbúunum á nokkurn hátt var að Reykjavíkurborg taldi að um minni háttar breytingu væri að ræða og að því hefði ekki verið þörf á sérstakri grenndarkynningu vegna verksins.

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar var aftur á móti að grenndarkynna hefði átt framkvæmdirnar, því þær gætu haft áhrif á íbúana.

Með umferðina í bakgarðinum

Verði af framkvæmdinni, mun umferð færast talsvert nær nokkrum íbúðahúsum við Birkihlíð en nú er. Viðar segir að það myndi hafa áhrif á loftgæði, hávaða og ásýnd á svæðinu. „Ég verð með umferðina í bakgarðinum hjá mér, við svefnherbergisgluggann. Það á að fjarlægja hljóðmön meðan á framkvæmdum stendur og það kemur ekkert fram um það í framkvæmdalýsingu að það eigi að hækka hana.“

Viðar segir íbúa ennfremur hafa áhyggjur af áhrifum þessa breytinga á fasteignamat á svæðinu. 

Íbúar eru tilbúnir í samtal

Viðar segir að íbúarnir hafi ekkert heyrt um hvort sækja eigi um nýtt framkvæmdaleyfi og á hvaða forsendum það verður. Þeir séu meira en reiðubúnir að ræða við fulltrúa borgarinnar um hvernig best væri að haga málum. „En okkur hefur ekki verið boðið upp á neitt slíkt samtal. Satt best að segja finnst mér dónaskapur að það hafi ekki verið haft samráð við okkur á neinu stigi málsins og mér gremst það offors sem farið var fram með í þessu máli.“

Hann segir að sér finnist þetta vera í nokkurri mótsögn við þá umræðu sem verið hefur um að hafa íbúa með í ráðum þegar ráðist sé í framkvæmdir. „Það er ekki nóg að vera með hugmyndasamkeppni á vefnum einu sinni á ári.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert