Birtíngsblaðamenn fá 162.000 eingreiðslu

Hjálmar Jónsson formaður Blaðamannafélags Íslands.
Hjálmar Jónsson formaður Blaðamannafélags Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eingreiðsla upp á 162 þúsund, 80.000 króna greiðsla á hverju ári vegna samnýtingar á efni í fleiri en einum fjölmiðli, aukin hlutdeild útgefanda í kostnaði blaðamanna vegna tækjakaupa og hækkun á grunnkaupi. Þetta er meðal þess sem felst í nýjum kjarasamningi Blaðamannafélags Íslands og útgáfufélagsins Birtíngs. Enn er ósamið við þá fé­laga í Blaðamanna­fé­lag­inu sem starfa á öðrum fjöl­miðlum. 

Skrifað var undir samninginn í gær og hann síðan borinn undir atkvæði þeirra starfsmanna Birtíngs, sem eru í Blaðamannafélaginu, í hádeginu í dag. 11 af 14 greiddu atkvæði og var samningurinn samþykktur einróma.

90.000 króna hækkun á kjörum og kjaratengdum liðum

Frá og með 1. desember hækka öll kjör og kjaratengdir liðir um 17.000 krónur, 1. apríl 2020 verður hækkunin 24.000 og sama upphæð 1. janúar 2021 og 1. janúar 2022 verður hækkunin 25.000. Alls eru þetta 90.000 krónur á samningstímabilinu.

Desemberuppbót verður 92.000 krónur, en er nú 89.000. Uppbótin hækkar síðan um 2.000 krónur á hverju ári út samningstímann. Þá hækkar júlíuppbótin einnig, hún er núna 48.000 krónur, en verður 50.000 á næsta ári og hækkar síðan um 1.000 krónur á ári út samningstímann.

Kaupaukataxti vegna launaþróunar

Inn kemur nýtt ákvæði um vaktstjórn sem felur í sér að sá sem sinnir henni fái að lágmarki 15% álag á taxtalaun og yfirvinnugreiðslur munu hækka úr 1,0385% í 1,15% frá og með 1. nóvember 2022. Þá verður á árunum 2020 - '22 reiknað ár hvert kaupaukataxti vegna launaþróunar, að tilteknum skilyrðum uppfylltum. „Úrskurði launa- og forsendunefnd ASÍ og SA kaupaukataxta á grundvelli launaþróunar skulu kauptaxtar samnings þessa taka sömu krónutöluhækkun,“ segir í samningnum.

Þá felst í honum 162.000 króna eingreiðsla sem greidd verður 1. janúar 2020 vegna þess hversu langt er liðið á árið og frá því síðastgildandi samningur rann út.

Full­trú­ar Blaðamanna­fé­lags­ins og Sam­taka at­vinnu­lífs­ins hitt­ust á stutt­um fundi hjá rík­is­sátta­semj­ara í morg­un vegna samninga blaðamanna sem starfa hjá Árvakri, RÚV, Sýn og Fréttablaðinu og sitja nú vinnufund þar. Að öllu óbreyttu ætti kosn­ing um vinnu­stöðvun fé­laga í Blaðamanna­fé­lagi Íslands á þessum fjölmiðlum að fara fram á morg­un og niðurstaðan að liggja fyr­ir síðdeg­is þann dag.

Kosið verður um fjór­ar vinnu­stöðvan­ir í næsta mánuði og er sú fyrsta fyr­ir­huguð föstu­dag­inn 8. nóv­em­ber.

Tekið skal fram að blaðamaður og flest­ir aðrir blaðamenn á rit­stjórn mbl.is og Morg­un­blaðsins eru fé­lag­ar í Blaðamanna­fé­lagi Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert