Birtíngsblaðamenn samþykktu samning

Blaðamenn hjá útgáfufélaginu Birtíngi samþykktu nú fyrir stundu kjarasamning á milli Blaðamannafélags Íslands og Birtíngs. Samningurinn var samþykktur einróma.

Af 14 starfsmönnum Birtíngs sem eru í Blaðamannafélaginu, BÍ, greiddu 11 atkvæði og samþykktu þeir allir samninginn. 

Samningurinn var undirritaður í gær með fyrirvara um samþykki samninganefndar BÍ og félagsmanna BÍ á Birtíngi og stjórnar Birtíngs. Samningurinn gildir í þrjú ár, til 1. nóvember 2022, og meðal þess sem hann felur í sér er gildistaka nýrrar launatöflu, hækkun á grunnlaunum og endurgreiddum kostnaði, endurskoðun á vaktaálagi og gildistaka á samningi um framsal á höfundarrétti, auk annarra smærri atriða.

Útgáfufélagið Birtíngur gefur út tímaritin Gestgjafann, Vikuna, Hús og híbýli og Mannlíf sem kemur út vikulega.

Enn er ósamið við þá félaga í Blaðamannafélaginu sem starfa á öðrum fjölmiðlum. Full­trú­ar Blaðamanna­fé­lags­ins og Sam­taka at­vinnu­lífs­ins hitt­ust á stutt­um fundi hjá rík­is­sátta­semj­ara  í morg­un og sitja nú vinnufund þar. Að öllu óbreyttu ætti kosning um vinnu­stöðvun fé­laga í Blaðamanna­fé­lagi Íslands að fara fram á morg­un og niðurstaðan að liggja fyrir síðdegis þann dag. Kosið verður um fjór­ar vinnu­stöðvan­ir í næsta mánuði og er sú fyrsta fyr­ir­huguð föstu­dag­inn 8. nóv­em­ber.

Tekið skal fram að blaðamaður og flest­ir aðrir blaðamenn á rit­stjórn mbl.is og Morg­un­blaðsins eru fé­lag­ar í Blaðamanna­fé­lagi Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert