„Það er allt að hrynja hér“

Allir sálfræðingar á Reykjalundi, níu talsins, íhuga að segja upp störfum sínum. Einn þeirra er Rúnar Helgi Andrason og hann segir þróun mála á Reykjalundi hafa verið slíka að vart verði unað við lengur. Sálfræðingarnir sendu frá sér yfirlýsingu í dag þar sem þeir gagnrýna aðgerðaleysi heilbrigðisyfirvalda og biðla til þeirra að grípa inn í ástandið.

„Við getum ekki unnið við þær breytingar sem hafa átt sér stað. Svo óttumst við satt best að segja það sem koma skal. Það er bókstaflega allt að hrynja hér innanhúss, þó við séum að reyna að halda uppi starfsemi gagnvart okkar skjólstæðingum,“ segir Rúnar Helgi.

Rúnar Helgi Andrason er sálfræðingur á Reykjalundi.
Rúnar Helgi Andrason er sálfræðingur á Reykjalundi. Ljósmynd/Aðsend

Ástandið orðið grafalvarlegt

Alls hafa átta læknar sagt upp störfum á Reykjalundi undanfarið, þar af bættust tveir yfirlæknar í hópinn í gær. Sálfræðingarnir funduðu í morgun um stöðu mála og í kjölfarið sendu þeir frá sér yfirlýsinguna þar sem segir m.a. að fagmennska hafi ávallt verið í fyrirrúmi á Reykjalundi og að starfsánægja hafi þar verið mikil. 

„Nú er hinsvegar staðan önnur og ástandið orðið grafalvarlegt. Nýtt skipurit var keyrt í gegn í sumar án aðkomu fagstjórnar eða fagráðs Reykjalundar. Forstjóri og framkvæmdastjóri lækninga voru reknir án nokkurra fullnægjandi skýringa. Núverandi framkvæmdastjórn virðist ekki hlusta á starfsfólk eða skynja mikilvægi mannauðsins í húsinu til að halda starfseminni gangandi. Í framkvæmdastjórn vantar fagfólk með endurhæfingarmenntun og þeir sem fara þar fremstir í flokki eru starfseminni ókunnugir og lesa illa inn í aðstæður hér innanhúss,“ segir í ályktun sálfræðinganna.

Segir nýja stjórnendur hafa litla þekkingu á starfseminni

Rúnar Helgi segir að undanfarin 20 ár hafi verið þróuð afar sérhæfð sálfélagsleg endurhæfing á Reykjalundi þar sem áhersla er m.a. á hugræna atferlismeðferð. Þetta hafi verið gert í góðri samvinnu við fyrri stjórnendur. „En í dag eru komnir aðilar við stjórn sem hafa ekki þessa þekkingu, að okkar mati né þekkingu á þverfaglegri endurhæfingu.“

Hvaða aðila áttu við? „Fólkið sem núna er í framkvæmdastjórninni. Ólaf Þór Ævarsson framkvæmdastjóra lækninga og Herdísi Gunnarsdóttur forstjóra Reykjalundar.“

Hann segir flesta sálfræðingana hafa starfað á Reykjalundi til fjölda ára og að þekking þeirra sé að mörgu leyti afar sérhæfð. Fari svo að þeir láti af störfum, fari mikil sérhæfing út af staðnum. „Sjálfur er ég t.d. sérfræðingur í endurhæfingu þrálátra verkja. Ég hef þróað ákveðna vinnu á okkar sviði sem mig langar til að halda áfram með. En það er erfitt að sjá það eins og staðan er núna.“

Undrast lítil viðbrögð ráðherra

Rúnar Helgi segist undrast hversu lítil viðbrögð hafi borist frá Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra. „Hún talar eins og hendur hennar séu bundnar vegna þess að Reykjalundur er rekinn af félagasamtökum. Það er undarlegt að félagasamtök skuli hafa svona mikið vald, eins og SÍBS hefur.“

Reykjalundur hefur verið rekinn af SÍBS alla tíð - hvað hefur breyst? „Ég íhugaði aldrei fyrr en nú að þau gætu komið hér og haft bein áhrif á faglega endurhæfingu sem þau hafa engar forsendur til að gera. Ég held að enginn hafi átt von á slíku.“

Spurður hvort sálfræðingarnir níu hafi sett einhver tímamörk varðandi úrbætur eða að öðrum kosti segja upp, segir Rúnar Helgi svo ekki vera. „Við ætlum að sjá hvernig hlutirnir þróast. Ég á erfitt með að sjá hvernig nýir stjórnendur sjá fyrir sér að halda áfram; að horfa á staðinn hrynja í kringum sig. Það er eins og þau telji sig vera stærri en þau verkefni sem unnin eru á Reykjalundi; stærri en allt fagfólkið sem hér vinnur.“ 

„Ég held að engan langi til að hætta“

Hver væri ásættanleg niðurstaða að ykkar mati? „Það þyrfti að bakka um nokkur skref í atburðarásinni, aftur til þess tíma þegar Birgir [Gunnarsson, forstjóri Reykjalundar] og Magnús [Ólason, framkvæmdastjóri lækninga] voru reknir. Að breyting yrði á stjórn SÍBS. Síðan þarf verulega að breyta í framkvæmdastjórn og afturkalla ráðningu Herdísar.“

Færi svo, að allir sálfræðingar á Reykjalundi segðu upp, hvaða áhrif hefði það á starfsemina? „Öll sálfræðimeðferð myndi lamast tímabundið. Nýir sálfræðingar þyrftu talsverðan tíma til að komast inn í þessi verkefni.“

Rúnar Helgi segist ekki hafa haft spurnir af fleiri uppsögnum í dag. „En það er mikil ólga í húsinu og margir eru byrjaðir að horfa í kringum sig. Ég  hef verið gríðarlega ánægður í starfi og stoltur af því að vinna á Reykjalundi. Ég veit að það á við um marga. Ég held að engan langi til að hætta. “

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert