Allt undir 80% vonbrigði

Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands, segist verða fyrir vonbrigðum ef …
Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands, segist verða fyrir vonbrigðum ef vinnustöðvun blaðamanna verði ekki samþykkt með yfir 80% atkvæða. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Atkvæðagreiðsla blaðamanna í Blaðamannafélagi Íslands um vinnustöðvun hófst í morgun. Klukkan 14 voru 113 búnir að kjósa og kjörsókn mælist 53,8% samkvæmt upplýsingum frá Blaðamannafélaginu. „Þetta er mjög góð kjörsókn. Við þurftum að ná 20% til þess að kosningin væri bindandi og við erum búin að ná því,“ segir Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands. 

Greidd eru atkvæði um fjór­ar vinnu­stöðvan­ir í næsta mánuði og er sú fyrsta fyr­ir­huguð föstu­dag­inn 8. nóv­em­ber. Kjörfundur hófst klukkan 9:30 í morgun hjá blaðamönnum Morgunblaðsins og mbl.is, á RÚV klukk­an 10:30, á Sýn klukk­an 11:30 og klukk­an 12:30 var kosið á Frétta­blaðinu. Þá geta félagsmenn BÍ greitt atkvæði í húsnæði Blaðamanna­fé­lags­ins í Síðumúla til kukkan 17. Talið verður að lokn­um kjör­fundi og úr­slit­in birt í beinu fram­haldi.

Hjálmar vonar og trúir því að vinnustöðvunin verði samþykkt með yfir 90% atkvæða. „Ég yrði fyrir vonbrigðum ef hlutfallið verður ekki yfir 80%.“

Hér má finna nánari upplýsingar um fyrirhugaðar vinnustöðvanir blaðamanna í nóvember. 

Tekið skal fram að blaðamaður og flest­ir aðrir blaðamenn á rit­stjórn mbl.is og Morg­un­blaðsins eru fé­lag­ar í Blaðamanna­fé­lagi Íslands.

mbl.is