Stoltenberg 2009 - Björn 2020

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra ávarpaði þing Norðurlandaráðs í dag.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra ávarpaði þing Norðurlandaráðs í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Björn Bjarnason mun vinna nýja skýrslu svipaða þeirri og Thorvald Stoltenberg, fyrrverandi utanríkisráðherra Noregs, vann um norræna samvinnu fyrir áratug. Áætlað er að Björns-skýrslan komi út um mitt næsta ár.

Björn Bjarnason mun vinna skýrsluna fyrir Norðurlandaráð.
Björn Bjarnason mun vinna skýrsluna fyrir Norðurlandaráð. Ljósmynd/Utanríkisráðuneytið

Þetta kom fram í máli Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra er hann ávarpaði Norðurlandaþingið í Stokkhólmi nú fyrir skömmu. Stoltenberg-skýrslan markaði tímamót í norrænu samstarfi og sagði Guðlaugur að skýrslan frá 2009 hafi sannarlega reynst innspýting í norrænt samstarf og leitt til aukins samstarfs á sviði utanríkis- og öryggismála. Margt hefur breyst síðan. Nægir þar að nefna loftslagsbreytingar, nýjar hættur eins og netógnir, og endurteknar tilraunir til að grafa undan marghliða alþjóðasamvinnu, alþjóðastofnum og alþjóðalögum.

Samþykkt var á fundi ráðherranna fyrr í dag að fá Björn til verksins en fram kom á septemberfundi Norðurlandaráðs í Helsingfors að rík ástæða þyki til þess að vinna nýja Stoltenberg-skýrslu, þ.e. nýja úttekt á norrænu samstarfi um utanríkis- og öryggismál í framtíðinni.

Þinghúsið í Stokkhólmi.
Þinghúsið í Stokkhólmi. norden.org/Johannes Jansson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert