Telja óvissu ríkja í kjölfar dómsins

mbl.is/Kristinn Magnússon

„Stjórn Leikfélags Reykjavíkur lítur svo á eftir niðurstöðu héraðsdóms að óvissa ríki um túlkun laga sem tryggja eiga vellíðan og öryggi starfsfólks og því er til skoðunar að áfrýja dóminum til Landsréttar.“

Þetta segir í samþykkt stjórnar Leikfélags Reykjavíkur í kjölfar þess að Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi Borgarleikhúsið og Kristínu Eysteinsdóttur leikhússtjóra til þess að greiða Atla Rafni Sigurðarsyni leikara 5,5 milljónir í bætur og eina milljón króna í málskostnað vegna uppsagnar hans í desember 2017 í kjölfar ásakana í hans garð um kynferðisáreitni.

„Stjórnendur hjá LR leggja mikla áherslu á góðan og faglegan starfsanda í Borgarleikhúsinu og telja mikilvægt að lög og reglur um viðkvæm og vandmeðfarin starfsmannamál séu skýr,“ segir enn fremur. Að öðru leyti ætli stjórnin og leikhússtjóri ekki að tjá sig um málið frekar að svo stöddu.

Sigurður Örn Hilmarsson, lögmaður Leikfélags Reykjavíkur og Kristínar, segir aðspurður í samtali við mbl.is að ekki liggi fyrir ákvörðun um það hvort málinu verði áfrýjað til Landsréttar. Verkefnið fram undan sé að fara betur yfir forsendur dómsins og taka síðan ákvörðun í framhaldinu.

Kristín Eysteinsdóttir leikhússtjóri.
Kristín Eysteinsdóttir leikhússtjóri. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert