„Vona bara að hann sé vegan“

Matarvagn Jömm á götumatarmarkaði í Malmö í sumar.
Matarvagn Jömm á götumatarmarkaði í Malmö í sumar. Ljósmynd/Aðsend

„Við fengum senda mynd í gærmorgun frá konu sem hélt hún væri að kaupa Jömm-hafragraut en uppgötvaði það þegar hún kom á kassann að þetta var eitthvað allt annað. Svo fengum við nokkur skilaboð yfir daginn frá fólki sem var rosalega ánægt með að við værum loks kominn í hafragraustbransann.“

Þetta segir Sæunn Ingibjörg Marinósdóttir, framkvæmdastjóri og einn eigenda Jömm. Nýr hafragrautur frá Sóma, undir merkjum Júmbó, hefur vakið athygli á samfélagsmiðlum vegna þess hve hönnun umbúðanna svipar til vörumerkis Jömm, svo og sænska hafravöruframleiðandans Oatly.

Jömm er í samkeppni við Sóma á samlokumarkaði.
Jömm er í samkeppni við Sóma á samlokumarkaði.

„Loks fór ég að senda vinum og vandamönnum mynd af grautnum án þess að segja neitt og fékk hamingjuóskir frá öllum,“ segir Sæunn í samtali við mbl.is. „Eftir að þetta fór á flug á Markaðsnördum og Vegan Ísland á Facebook ákváðum við svo að senda frá okkur tilkynningu. Við könnumst ekkert við þennan hafragraut, en ég bíð spennt eftir að skoða hann betur og vona bara að hann sé vegan.“

Færðu markaðsdeild Sóma kaffi og samlokur

Hönnun á hafragrautsumbúðum Sóma þykir einnig líkjast vörumerki sænska hafravöruframleiðandans …
Hönnun á hafragrautsumbúðum Sóma þykir einnig líkjast vörumerki sænska hafravöruframleiðandans Oatly.

Sæunn segir að aðstandendum Jömm hafi verið brugðið í fyrstu og þótt þetta mjög leiðinlegt. Svo hafi þau séð spaugilegu hliðina á málinu. Á Instagram-reikningi Jömm má sjá starfsfólk Jömm heimsækja markaðsdeild Sóma með kaffi og Jömm-samlokur. „Við höfum smá áhyggjur af því að þau séu orðin of þreytt til að fá góðar hugmyndir.“

Stendur til að Jömm komi með hafragraut á markað?

„Nei, við höfum ekki verið í þeim hugleiðingum. Við erum meira í djúsí sósumat. Hafragrautur er meiri heilsuvara, sem er ekki alveg okkar brand. En ef það kemur hafragrautur frá okkur þá mun fólk þekkja hann á bragðinu, það verður meira Jömm,“ segir Sæunn.

Hún gerir ekki ráð fyrir að Jömm fari með málið lengra. „Það er eins og búið sé að bræða saman Oatly og Jömm og ég veit ekki hvort þetta sé tilefni í einkaleyfamálsókn, en ég held að Sómi hljóti bara að fara að fá betri hugmyndir. Ég er spennt að sjá hvað gerist næst, hvort þetta eigi að verða heil lína eða hvað. En fyrst og fremst vona ég að þetta sé vegan vara og að næstu vörur frá þeim verði vegan líka. Það er okkar aðalástríða.“

Horft til tíðaranda erlendis og hérlendis

Í svari Sigurðar Ólafssonar, stjórnanda hjá Sóma, við fyrirspurn mbl.is vegna málsins segir að ekki hafi verið horft sérstaklega til umræddra vörumerkja þegar nýtt útlit Júmbó var hannað fyrir um ári síðan.

„Horft er til tíðarandans í heild erlendis og hérlendis þegar nýtt útlit er hannað og þetta var útkoman í þetta sinn, en reglulega er útlit og umbúðir uppfærðar.  En um að gera að smakka nýja hafragrautin frá Júmbó, það er jú innihaldið sem skiptir mestu máli.“mbl.is