Leikfélag Reykjavíkur áfrýjar til Landsréttar

Stjórn leikfélagsins telur að í forsendum dómsins sé ekki vikið …
Stjórn leikfélagsins telur að í forsendum dómsins sé ekki vikið að hagsmunum þeirra starfsmanna sem kvartað hafa undan kynferðislegri áreitni og kröfu þeirra um vellíðan og öryggi á vinnustað. mbl.is/Eggert

Leikfélag Reykjavíkur hefur ákveðið að áfrýja dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Atla Rafns Sigurðssonar, en leikfélagið og Kristín Eysteinsdóttir leikhússtjóri Borgarleikhússins voru í gær dæmd til þess að greiða Atla Rafni 5,5 milljónir króna í bætur og eina milljón króna í málskostnað vegna máls sem hann höfðaði sökum uppsagnar hans hjá leikfélaginu. Þetta kemur fram í yfirlýsingu til fjölmiðla frá leikhússtjóra og Eggerti Benedikt Guðmundssyni stjórnarformanni leikhússins.

Stjórn leikfélagsins telur að í forsendum dómsins sé ekki vikið að hagsmunum þeirra starfsmanna sem kvartað hafa undan kynferðislegri áreitni og kröfu þeirra um vellíðan og öryggi á vinnustað.

„Þessi niðurstaða héraðsdóms skapar að mati stjórnar LR óvissu um skyldur vinnuveitanda gagnvart starfsfólki, hvort þeim sé yfir höfuð heimilt að taka á móti slíkum kvörtunum í trúnaði, hvort hinn meinti gerandi eigi rétt á því að trúnaður við þau sem kvartað hafa sé brotinn og að lokum hvernig bregðast skuli við slíkum ásökunum. Það er að segja hvort ásakanirnar sem slíkar skapi hinum meinta geranda vernd gegn uppsögnum umfram það sem almennt tíðkast á almennum vinnumarkaði,“ segir í yfirlýsingunni.

Leikfélagið gerir einnig athugasemd við það að í forsendum dómsins segi að Atli Rafn hefði eftir atvikum átt rétt á að breyta hegðun sinni og telur að þó að slík krafa eigi við í opinberum starfsmannarétti, gildi hún ekki á almennum vinnumarkaði. Einnig sé því ósvarað hvernig vinnuveitandi „eigi að samþætta slíka kröfu við skyldur sínar gagnvart þeim er kvartað hafa og upplifa vanlíðan á vinnustaðnum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert