„Nú á ég ekkert dót“

Hæ, ég heiti Aria. Ég er átta ára og nú …
Hæ, ég heiti Aria. Ég er átta ára og nú á ég hvergi heima. Svona hefst sagan sem heyra má með því að hringja í 562 6262, símanúmer á vegum UNICEF á Íslandi þar sem vakin er athygli á neyð sýrlenskra barna sem eru á vergangi. Ljósmynd/UNICEF á Íslandi

Hæ, ég heiti Aria. Ég er átta ára og nú á ég hvergi heima. Svona hefst sagan sem heyra má með því að hringja í 562 6262, símanúmer á vegum UNICEF á Íslandi þar sem vakin er athygli á neyð sýrlenskra barna sem eru á vergangi. Eftir að Tyrklandsher réðist inn á yfirráðasvæði Kúrda fyrir um þremur vikum hefur bæst í þennan hóp barna sem samsvarar öllum börnum á Íslandi.

„Þegar sprengjurnar fóru að springa sagði mamma að við þyrftum að fara. Mamma og pabbi flúðu með mig og systkini mín til borgarinnar Hasaka. Við gátum ekki tekið neitt með okkur. Nú á ég ekkert dót,“ segir Aria. 

„Í Hasaka búum við í skóla með fullt af öðru fólki. Mörgum, mörgum fjölskyldum sem eiga líka hvergi heima lengur. Mörgum börnum sem eiga ekkert dót lengur. Fullorðna fólkið segir að í Hasaka sé vatnið að verða búið. Við þurfum örugglega að flýja aftur, bróður mínum vantar líka lyf sem eru að verða búin. Ég er hrædd......“

Og svo rofnar sambandið.

Hafa safnað tugmilljónum fyrir sýrlensk börn

Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi,
Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, Ljósmynd/UNICEF á Íslandi

Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, segir að Aria sé tilbúið nafn, en að saga hennar sé byggð á sögum barna sem UNICEF hafi heyrt frá sýrlenskum börnum sem hafa þurft að flýja heimili sín. Hann segir að átakið sé liður í því að nú blási UNICEF á Íslandi  nýju lífi í neyðarsöfnun sína fyrir börn í Sýrlandi, en hún hefur staðið yfir frá því að átökin þar hófust árið 2011. 

„Almenningur á Íslandi hefur ítrekað brugðist við ákalli okkar og við erum óendanlega þakklát. Á þessum tíma höfum safnað tugmilljónum króna og þeim hefur verið varið m.a. í vatnsveitur og bæði formlega og óformlega menntun barna. Þá hefur verið lögð áhersla á barnavernd, að koma börnum til fjölskyldna sinna sem þau hafa orðið viðskila við og í sálgæslu barna sem hafa upplifað það sem engin börn eiga að upplifa,“ segir Bergsteinn.

Skortir hreint vatn, mat og lyf

Hann segir að talið sé að um átta milljónir sýrlenskra barna þurfi aðstoð af einhverju tagi; sum þeirra séu enn í Sýrlandi, önnur búi við misjafnar aðstæður í nágrannaríkjunum. „Rúm milljón býr á svæðum sem erfitt er að ná til, þau geta verið umsetin stríðandi aðilum og þó að árásum Tyrklandshers á svæði Kúrda hafi linnt, er neyðin enn mikil,“ segir Bergsteinn. „Það er skortur á hreinu vatni og á ýmsum nauðsynjum eins og mat og lyfjum.“

UNICEF á Íslandi sendir Íslendingum áskorun um að hlusta á …
UNICEF á Íslandi sendir Íslendingum áskorun um að hlusta á börn í Sýrlandi með því að hringa í síma 562 6262. Ljósmynd/UNICEF á Íslandi

Skiljanlegt að einhverjir upplifi „neyðardoða“

Bergsteinn segir að frá því að átökin hófust hafi verið nánast linnulaus fréttaflutningur af stöðu mála í Sýrlandi og skiljanlegt sé að fólk geti upplifað einhvers konar „neyðardoða“ þegar neyðin hafi staðið yfir svona lengi. „Jafnvel halda einhverjir að átökunum sé lokið. En þau geisa áfram og börnin þurfa ennþá aðstoð.“

mbl.is