Um 10-15% íbúa Hrafnistu í Hafnarfirði með nóróveiru

Hrafnista á Hraunvangi í Hafnarfirði.
Hrafnista á Hraunvangi í Hafnarfirði. Ljósmynd/Aðsend

Um 10 til 15% af íbúum Hrafnistu á Hraunvangi í Hafnarfirði hafa greinst með nóróveiru. Um 200 íbúar eru á Hraunvangi. Fyrsti einstaklingurinn smitaðist á mánudaginn og einn varð veikur í nótt. Nóróveiran, sem er bráðsmitandi þarmasýking sem veldur uppköstum og niðurgangi, hefur greinst á tveimur af fjórum deildum Hrafnistu. 

Gripið var strax til sóttvarnaaðgerða og öllum stöðum í húsinu þar sem íbúar koma saman var lokað. Til að mynda fá allir matinn sinn upp á herbergi, iðjuþjálfun er lokuð og heimsóknir eru í lágmarki. 

„Við tökum hart á þessu og höfum sett strangar reglur því þetta er bráðsmitandi og við erum með ákaflega viðkvæman hóp. Við viljum frekar gera þetta en að þetta teygi sig yfir lengri tíma,“ segir Árdís Hulda Eiríksdóttir, forstöðumaður Hrafnistu á Hraunvangi. Unnið er eftir ákveðnu verklagi og samkvæmt því var svokallaður sýkingavarnarstjóri virkjaður.

Enginn verið lagður inn á spítala 

„Enginn hefur verið lagður inn, við sinnum þessu hér inni. Það sem gerir þetta þyngra líka er að starfsmennirnir sýkjast líka,“ segir Árdís. Hún segir ættingjana og íbúana sýna þessu mikinn skilning. Aðgerðirnar hafa vissulega áhrif á félagslega þáttinn þegar fólk geti ekki hist eins mikið en betra er að hafa vaðið fyrir neðan sig því hópurinn er viðkvæmur eins og fyrr segir. 

Þeir sem veiktust fyrst eru á batavegi. Alla jafna gengur þetta yfir á sólarhring en fólkið er lengi að jafna sig og er slappt í nokkra daga á eftir. Sólarhring eftir að einstaklingarnir eru einkennalausir fá þeir að koma út úr íbúðunum sínum en fram að því eru þeir í hálfgerðri einangrun þar. 

„Þetta er nánast regla í íslensku samfélagi að í kringum jólin fer nóróveiran að skjóta upp kollinum. Við höfum verið nokkuð heppin hér undanfarið því fimm ár eru liðin frá því nóróveira greindist hér síðast,“ segir hún.

Hún er vongóð um að í næstu viku verði starfsemin komin í eðlilegt horf. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert