„Hef brennandi ástríðu fyrir leikhúsinu“

Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri RÚV verður næsti þjóðleikhússtjóri.
Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri RÚV verður næsti þjóðleikhússtjóri. mbl.is/Golli

„Ég er einstaklega stoltur og glaður yfir því að vera treyst fyrir þessu mikilvæga starfi og svo er ég fullur tilhlökkunar að koma í Þjóðleikhúsið og fá að taka þátt í því starfi sem þar fer fram,“ segir Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri RÚV og verðandi þjóðleikhússtjóri, í samtali við mbl.is.

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra ákvað að skipa Magnús Geir í starf þjóðleikhússtjóra og gildir sú skipun í fimm ár, frá og með 1. janúar 2020. Sjö umsóknir bárust um embætti þjóðleikhússtjóra og var Magnús Geir metinn hæfastur ásamt þremur öðrum.

Mun móta stefnu til framtíðar með fólki í Þjóðleikhúsinu

„Ég geri ráð fyrir því að fyrstu mánuðirnir fari í það að móta áherslur, þó ég sé auðvitað með fullt af hugmyndum, þá verður það fyrsta verkefnið að setja mig betur inn í málin og hlusta á það góða fólk sem fyrir er í húsinu og svo í samstarfi við það móta spennandi verkefni og stefnu til framtíðar,“ segir Magnús spurður um fyrstu skrefin í starfinu.

Hann segir þó ekki tímabært að fara nánar út í þær hugmyndir og áherslur sem hann er með á þessari stundu.

„Leikhús er staður þar sem samvinna er ofar öllu og það er ekki einn maður sem leggur línur og tekur ákvarðanir heldur gerist það í hóp. Ég þarf að taka þær hugmyndir sem ég er með og setja þær í pottinn með öðrum hugmyndum sem eru í gangi,“ segir hann og bætir við:

Aðalatriðið að segja sögur sem eiga erindi og skipta samfélagið máli

„En ég hef brennandi ástríðu fyrir leikhúsinu og hef haft hana síðan ég man eftir mér. Ég tel að það séu gríðarleg tækifæri í Þjóðleikhúsinu til þess að vera í forystu og vera leiðandi í íslensku leikhúslífi, sem er auðvitað einstakt, þannig ég held að það séu mjög bjartir tímar framundan.“

Spurður hvort stóru tvö leikhús Íslendinga, Þjóðleikhúsið og Borgarleikhúsið, séu of íhaldssöm og hvort hann sjái fyrir sér breytingar á stefnu Þjóðleikhússins segir hann aðalatriðið vera að segja sögur sem eiga erindi.

„Leikhúsið þarf að taka áhættur en fyrst og fremst að vera opið og hlusta eftir því sem skiptir máli í samfélaginu og taka þátt í því. Ég sé fyrir mér að Þjóðleikhúsið geri það svo sannarlega og það séu sögur sem standa okkur nærri og hreyfa við okkur sem verði áberandi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert