Niðurstöðurnar staðfesta áhyggjur Geðhjálpar

Geðhjálp segir niðurstöður landskönnunar á geðrækt í skólum landsins ekki ...
Geðhjálp segir niðurstöður landskönnunar á geðrækt í skólum landsins ekki hafa komið á óvart. Morgunblaðið/Hari

„Niðurstöður könnunarinnar koma ekki á óvart og þær ýta undir þær áhyggjur sem Geðhjálp hefur áður viðrað.“ Þetta kemur fram í ályktun Geðhjálpar vegna niðurstaðna úr landskönnun Embætti landslæknis á geðrækt, forvörnum og stuðning við börn og ungmenni í skólum á Íslandi. 

Í henni kemur meðal annars fram að tryggja þarf mun bet­ur en gert er í dag að nem­end­ur á öll­um skóla­stig­um fái þann stuðning sem þeir þurfa vegna erfiðleika á sviði hegðunar, líðanar og fé­lags­færni. 

frétt mbl.is

Þetta er umfangsmesta könnunin sem hefur verið gerð hér á landi á stöðu geðræktar í íslenskum skólum. Geðhjálp fagnar þessari könnun og með henni er hægt að kortleggja stöðuna svo unnt sé að horfast í augu við stöðuna og grípa til aðgerða. 

Geðhjálp bendir á að þessi mótunarár „séu gríðarlega mikilvæg þegar kemur að andlegri heilsu síðar á ævinni. Fordómar verða ekki til upp úr engu og jaðarsetning einstaklinga vegna geðrænna vandamála hefst því miður gjarnan á þessum árum barnsins í skólakerfinu.“ Þetta kemur fram í ályktuninni. 

Landssamtökin Geðhjálp skora á stjórnvöld og samfélagið að taka mark á könnuninni. „Það þarf nýja nálgun þar sem hagsmunir kerfisins eru settir til hliðar og hagsmunir barna eru settir í öndvegi. Með því að setja geðrækt, forvarnir og stuðning við börn og ungmenni í forgang á Íslandi erum við að byggja í haginn til framtíðar.“

mbl.is