Segir engan niðurskurð í gangi á LSH

„Það er nátt­úru­lega þannig að við gríp­um ekki pen­inga upp …
„Það er nátt­úru­lega þannig að við gríp­um ekki pen­inga upp úr grjót­inu og það eru fleiri rík­is­stofn­an­ir sem eru í vand­ræðum með sinn rekst­ur,“ seg­ir Svandís. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, segir að fyrirhugaðar sparnaðaraðgerðir á Landspítalanum séu ekki ekki niðurskurður heldur einfaldlega viðbrögð við halla. Jafnframt segir Svandís að ekki sé útlit fyrir frekari fjárútlát til spítalans frá ríkinu fyrir áramót. 

Páll Matthíasson, for­stjóri Land­spít­al­ans, kynnti umfangsmiklar sparnaðaraðgerðir á spítalanum fyrir um tveimur vikum síðan. Í þeim felst til að mynda að viðhaldi verði að ein­hverju leyti frestað, ítr­asta aðhalds gætt við inn­kaup, launa­fyr­ir­komu­lag end­ur­skoðað og að ekki verði ráðið í viss­ar stöður sem losna.

Spurð hvort raunhæft sé að skera á þennan hátt niður hjá spítalanum segir Svandís:

„Þetta eru ekki niðurskurðaraðgerðir samkvæmt skilgreiningu því þarna er stofnunin að bregðast við halla. Það er enginn ósk frá mér um niðurskurð á Landspítala. Það hefur verið aukið til reksturs á Landspítalanum ár frá ári undanfarin ár og áformuð aukning til rekstrar á næsta ári er 4,8% frá því sem er á árinu í ár.“

Svandís segir að Landspítalinn þurfi að bregðast við sínum halla, rétt eins og aðrar ríkisstofnanir.

„Stofnunin er núna að leita leiða til þess að bregðast við því að reksturinn virðist vera að fara umtalsvert fram úr þeim heimildum sem stofnunin hefur í fjárlögum. Það er allt annar hlutur heldur en niðurskurður.“

„Grípum ekki peninga upp úr grjótinu“

Læknar, hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar eru á meðal þeirra sem hafa lýst yfir áhyggjum af því að öryggi sjúklinga sé stefnt í hættu vegna fyrirhugaðra sparnaðaraðgerða. Um það segir Svandís:

„Þetta er allt saman til umfjöllunar núna á milli spítalans og ráðuneytisins og síðan fjármálaráðuneytisins og fjárlaganefndar. Þarna eru ýmis sjónarmið, það eru ýmsar rætur þarna að baki. Sumt er fyrirséð og annað ekki. Það hefur til að mynda sérstaklega verið talað um launabætur sem lúta þá að kjarasamningum sem Landspítalinn telur að hafi ekki verið að fullu bættir. Það er verið að skoða það sérstaklega. Það er hluti af þessum vanda sem þarna blasir við og mitt mat er að það séu málefnaleg rök hjá spítalanum.“

Svandís segir aukin fjárframlög ríkisins til Landspítalans ekki áætluð á þessu ári. 

„Það er náttúrulega þannig að við grípum ekki peninga upp úr grjótinu og það eru fleiri ríkisstofnanir sem eru í vandræðum með sinn rekstur. Til þess að ákveða auka fjárframlög þá þarf það að gerast í gegnum Alþingi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert