Síðasti McDonalds borgarinn vekur heimsathygli

McDonald borgarinn mun vera í sama ástandi í dag og …
McDonald borgarinn mun vera í sama ástandi í dag og þegar þessi mynd var tekin árið 2015. mbl.is/Kristinn

Tíu ára McDonald’s hamborgari sem nú er til sýnis á Snotru-hosteli á Suðurlandi, hefur vakið heimsathygli. Borgarinn hefur ekkert myglað á þeim áratug sem liðinn er frá því hann var keyptur sama dag og skyndibitakeðjunni frægu var lokað hér á landi 31. október 2009. 

Borgarinn hefur nú verið geymdur, ásamt skammti af frönskum kartöflum, í heilan áratug og eru það helst umbúðir matarins sem farnar eru að láta á sér sjá. Hamborgarinn hefur vakið mikla athygli og hafa erlendir miðlar á borð við Washington Post, BBC, AFP og Fox News fjallað um borgarann sem rotnar ekki. 

Borgarinn fór að vekja töluverða athygli þegar mbl.is komst á snoðir um hann 2015. Þá greindi Grapevine frá borgaranum stuttu síðar og komst málið þá á flug um hinn enskumælandi heim, eins og fram kemur í umfjöllun RÚV um McDonalds á Íslandi.

„Ég var bú­inn að heyra þessa þjóðsögu um að McDon­ald's-ham­borg­ar­ar mygluðu aldrei. Mig langaði hrein­lega að at­huga hvort þetta væri rétt eða ekki,“ sagði Hjörtur Smárason kaupandi borgarans í samtali við mbl.is það ár.

Fylgjast má með einstaklega hægri rotnun borgarans fræga í vefmyndavél á vegum Snotru Hostels. 

Frétt BBC. 

Frétt Washington Post. 

Frétt Fox News. 

mbl.is