Skíðasvæði Bláfjalla teygir sig til Ölfuss

Miklar framkvæmdir eru fyrirhugaðar í Bláfjöllum næstu árin.
Miklar framkvæmdir eru fyrirhugaðar í Bláfjöllum næstu árin. mbl.is/Hari

Til stendur að stækka skíðasvæði Bláfjalla inn í sveitarfélagið Ölfus. Leggja á diskalyftu úr Kerlingardal upp á topp Bláfjalla, auk þess sem efri endastöðvar tveggja nýrra lyfta verða innan marka sveitarfélagsins, en með því verða til nýjar skíðaleiðir.

Tillaga að deiliskipulagi þess efnis var auglýst í gær. Skipulagssvæðið sem um ræðir er um 100 hektarar að stærð, suðaustan núverandi skíðasvæðis í austurhlíðum Bláfjalla. Svæðið er lítt gróið, sérstaklega í fjallshlíðum, að því er segir í auglýsingunni. Ólíkt núverandi brekkum í skíðasvæði Bláfjalla, sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu reka, veit svæðið því mót sólu.

Í samtali við mbl.is segir Einar Bjarnason, rekstrarstjóri í Bláfjöllum, að framkvæmdirnar fyrirhugðu séu liður í samkomulagi sem borgarstjóri og bæjarstjórar á höfuðborgarsvæðinu undirrituðu í fyrravor. „Við lendum í því að þurfa að fara aðeins inn á landið þeirra [Ölfusar] en það er öll aðkoma þeirra að þessu,“ segir Einar og bætir við að bæjarstarfsmenn hafi verið mjög samvinnuþýðir og því hafi undirbúningur gengið hratt og vel.

Fyrir eru í Kerlingardal gönguskíðaleiðir og ekki ætlunin að loka þeim. Þvert á móti muni hinar nýju lyftur gagnast gönguskíðamönnum, sem geti þá komist niður úr fjallinu með nýju lyftunum vilji þeir það. Vonir standa til að flestar lyfturnar verði komnar upp eftir 5-6 ár.

Framkvæmdasvæðið.
Framkvæmdasvæðið. Teikning/Ölfus
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert