„Velkominn, nóvember“

Náttúruhlauparar hita sig upp.
Náttúruhlauparar hita sig upp. mbl.is/Alexander

Óvenjuleg sjón sem blasti við blaðamönnum mbl.is í Hádegismóum í morgun, enda sjaldnast sem nokkur á þangað erindi í morgunsárið nema til vinnu. Þangað var kominn fríður flokkur á að giska hundrað hlaupara, svokallaðra náttúruhlaupara, í upphitun undir morgunhlaup.

Birkir Már Kristinsson, einn forsprakka hópsins, segir náttúruhlaupin ólík hefðbundnum hlaupum þar sem valdar eru náttúrulegar hlaupaleiðir í stað þess að hlaupa á hefðbundnum götum og hlaupastígum. Þannig geti fólk notið náttúrunnar og hreyft sig samtímis.

Náttúruhlaupin hafa verið haldin reglulega frá 2014 og hópurinn hlaupið um hin ýmsu útivistarsvæði í nágrenni höfuðborgarinnar. Nú var röðin komin að Rauðavatni, og eftir samstillta upphitun á bílastæði Morgunblaðsins lagði hópurinn í hann í þremur hollum.

Birkir segir að markmiðið með hlaupunum sé fyrst og fremst að hafa gaman og njóta náttúrunnar, en margir fái þó bakteríuna og færi sig yfir í fjallahlaup og önnur kapphlaup á borð við Laugavegshlaupið.

Að svo búnu er viðtalinu lokið, því áður en lagt er í hann þarf hópurinn að bjóða nóvember velkominn. Annar hópstjóri safnar mannfjöldanum saman í hring og svo tekur fólkið til við að kyrja nafn mánaðarins milli þess sem það reigir sig og beygir til að tryggja að líkaminn sé í réttu standi áður en haldið er af stað. „Velkominn, nóvember.“

Það verður ekki sagt um Hádegismóa að útsýnið sé slæmt.
Það verður ekki sagt um Hádegismóa að útsýnið sé slæmt. mbl.is/Alexander
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert