Biðst afsökunar á kynferðislegri samlíkingu

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. mbl.is/Eggert

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra biðst afsökunar á að hafa gripið til óviðeigandi samlíkingar í samræðum við stjórnmálafræðinema í Háskóla Íslands sem komnir voru í kynningarferð í utanríkisráðuneytið. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá ráðherra. 

Alexandra Ýr van Erven stjórnmálafræðinemi greindi frá samskiptum sínum og ráðherra á Twitter í dag. Þar segir hún að á fundinum hafi málefni háskólans, og eðli háskólanáms, borist í tal og Alexöndru og ráðherra greint á um hvort helsta hlutverk háskólanáms væri að framleiða starfskrafta fyrir atvinnulíf eða ekki. Ráðherra hafi þá afskrifað hugmyndir hennar með því að spyrja hvernig henni þætti að „hreinn sveinn [sem] hefði lesið hellings til um kynlíf“ færi að „kenna henni að ríða“.

Segir hún að ummælin séu birtingarmynd þess hve stutt samfélagið sé komið í femínískri baráttu, en að ráðherra hefði aldrei leyft sér að taka svona til orða ef um karlmann væri að ræða.

Guðlaugur Þór var ekki til viðtals þegar þess var óskað, en í yfirlýsingu sem hann sendi fjölmiðlum segir hann að hann hafi viljað koma því á framfæri að stjórnmálafræði og reynsla af stjórnmálum væri tvennt ólíkt, og á einhvern hátt sambærilegt við muninn á reynslu og bóknámi í kynfræðslu. Samlíkingin hafi ekki verið orðuð á þann veg sem slegið var upp á samfélagsmiðlum, segir ráðherra, án þess að fara nánar út í þær athugasemdir. „Þessu var ekki beint að neinum í hópnum og hvorki sett fram til að ögra né særa heldur sagt í hálfkæringi. [...] Bið ég hlutaðeigandi afsökunar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina