Í klukkustundarfjarlægð frá skógareldunum

Smári ásamt syni sínum Gabríel.
Smári ásamt syni sínum Gabríel. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta hefur töluverð áhrif þótt við séum ekki alveg í hringiðunni,“ segir Smári Ásmundsson, en hann er búsettur í Petaluma í Kaliforníu, um klukkustundarakstursfjarlægð frá skógareldum sem nú leika ríkið grátt. Um 30.000 hektarar lands hafa brunnið frá því eldarnir brutust út fyrir um tveimur vikum og hafa fjölmargir þurft að flýja heimili sín, þeirra á meðal stórstjörnurnar Arnold Schwarzenegger og Lebron James. Hafa margir leitað skjóls í námunda við bæ Smára.

Smári segir að reykjarmökkurinn teygi sig yfir til Petaluma og því hafi skólahald legið niðri um tíma í síðustu viku. Þá var rafmagn tekið af hluta bæjarins tvisvar í síðustu viku, í nokkra daga í senn. Slökkviliði hefur að mestu tekist að ná stjórn á eldinum, en á upplýsingasíðu almannavarna Kaliforníu segir að 76% séu nú undir stjórn slökkviliðsins, hvernig sem það er nú skilgreint.

Hann segir skógarelda alltaf hafa verið vandamál, en þeir hafi færst í aukana síðustu árin og nú sé svo komið að stórir eldar komi upp árlega. „Þessi tími ársins er sá hættulegasti,“ segir Smári. Varla hafi rignt mánuðum saman, og þegar bætir í vind með haustinu þurfi lítið til að lítill neisti verði að stóru báli.

Það er þó ekkert fararsnið á Smára. Hann hefur síðustu ár selt Bandaríkjamönnum lífrænt skyr undir merkjum Smári Organics. Nú hefur hann hins vegar söðlað um og er farinn að selja próteinkaffi, sem hann kallar einfaldlega Kaffi, upp á íslensku. Þótt einungis nokkrir mánuðir séu liðnir frá því hann fór í kaffiframleiðsluna er kaffið þegar komið í sölu í yfir eitt þúsund verslunum í Bandaríkjunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert