Öryggi í stað smáglæpa

Vilhjálmur Árnason þingmaður Sjálfstæðisflokksins flutti tillögu flokkahóps hægri manna um …
Vilhjálmur Árnason þingmaður Sjálfstæðisflokksins flutti tillögu flokkahóps hægri manna um aðgerðir til þess að koma í veg fyrir smáglæpi. Johannes Jansson/Norden.org

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, flutti á Norðurlandaþingi tillögu flokkahóps hægrimanna um að Norðurlandaráð beini þeim tilmælum til ríkisstjórna Norðurlanda að norrænu löndin skoði hvaða lærdóm megi draga af New York-líkaninu og hvernig nýta megi hann í norrænu löndunum.

Samkvæmt tillögunni er hætta á að það grafi undan trú á réttarkerfið og ríkisvaldið takist lögreglunni ekki að skapa öryggi og upplýsa glæpi. 

„Almennt hefur trú á réttarkerfið verið mikil á meðal norrænna borgara. Þó sýna skýrslur frá sænska glæpaforvarnaráðinu fram á auknar áhyggjur af glæpum og þverrandi tiltrú á réttarkerfið, nokkuð sem er sérstaklega áberandi á félagslega viðkvæmum svæðum. 

Til að snúa þessari þróun við telur flokkahópur hægrimanna í Norðurlandaráði að norrænu löndin ættu að reyna að draga lærdóm af árangursríkri baráttu New York-borgar gegn glæpum og af New York-líkaninu,“ segir í tillögu hægri manna.

Vilhjálmur segir að tillagan gangi út á það að Norðurlöndin taki út þetta líkan og læri á því hvaða árangur hafi náðst með því að gera New York-borg að öruggum stað og í raun eina af öruggustu stórborgum heims. Við bendum líka á að þetta er ekki bara í löggæslutilgangi heldur líka eins og verkefnið með Bryant Park sem er almenningsgarður. Svæði þar sem fólk safnast saman og var komið með slæmt orð á sig, meðal annars var garðurinn kallaður „sprautugarðurinn“,“ segir Vilhjálmur.

Árið 1980 var stofnað til verkefnis (The Bryant Park Corporation (BPC)) sem var ætlað að endurreisa hinn sögufræga almenningsgarð sem mjög hafði látið á sjá á áttunda áratugnum.

BPC stóð fyrir því að fegra og hreinsa garðinn og gera hann öruggan. Bryant Park fór frá því að vera nefndur sprautugarður í að vera einn vinsælasti almenningsgarður New York-borgar.

Vilhjálmur segir að forsvarsmenn BPC hafi beitt sömu aðferðum og lögreglan, það er þetta snýst ekki bara um að taka á smáglæpum af lögreglu heldur líka að þeir sem annast garða, lestarkerfi og fleira beiti sér fyrir því að umhverfið verði snyrtilegt. „Því þá lítur þetta út fyrir að vera öruggt umhverfi. Til að mynda veggjakrot var hreinsað strax og eins ef eitthvað var skemmt þá var gert við það um leið,“ segir Vilhjálmur.

Upplýsingar um Byant Park

Bryant Park í New York.
Bryant Park í New York. Jean-Christophe Benoist/Wikipedia

Frá 1990 hefur glæpatíðni lækkað almennt um 81,8 prósent, ránum hefur fækkað um 87,1 prósent og manndrápum um 87 prósent. 

„Fyrrverandi yfirmanni jarðlestadeildar lögreglunnar, Bratton, er eignaður stór þáttur í þessum árangri en hann tók upp þá stefnu að brot á borð við að greiða ekki fargjald eða krota á veggi væru ekki liðin. Þeir sem ekki greiddu fargjald voru dæmdir til sektargreiðslu.

Ef leitað var á þeim sem ekki greiddu fargjald kom í ljós að fimmti hver þeirra var annaðhvort eftirlýstur eða með fíkniefni á sér og tíundi hver þeirra var vopnaður. Þessar aðgerðir höfðu í för með sér að vopnum fækkaði í New York.

Útkrotaðir jarðlestarvagnar voru teknir úr umferð þar til þeir höfðu verið hreinsaðir og öryggistilfinning notenda jókst. Aðferðin sem notuð var, The Broken Windows Theory, er byggð á því að sé rúða brotin án þess að vera löguð líði ekki á löngu uns önnur verði brotin. Við tekur neikvæð keðjuverkun með hækkaðri glæpatíðni, lækkun fasteignaverðs og dvínandi öryggi.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Spurður út í kostnaðinn við að fara í aðgerðir sem þessar segir Vilhjálmur að til að byrja með geti kostnaður aukist en það sé aðeins í upphafi. „Sumir spyrja hvort það kosti ekki mikinn pening að skipta sér af öllum smáglæpum og að taka heila lest úr umferð vegna veggjakrots eða skemmda. Þessu er til að svara að það lítur út fyrir að vera mikill kostnaður í byrjun en það er bara miklu meiri kostnaður við að vera með alla þessa smáglæpi. Til þess að sýna að þeim væri alvara hækkuðu þeir sektina gríðarlega,“ segir Vilhjálmur. 

„Til að mynda ef börn stunduðu veggjarkrot og voru staðin að verki þurftu foreldrar þeirra að greiða háar fjárhæðir til þess að leysa málið. Þá jókst þessi ábyrgð sem fólk hafði á sjálfu sér og öðrum og fór að bera meiri virðingu fyrir hlutunum en áður. Kannski smáglæpur en kostaði mikið að hafa framið hann. Viðhorf til smáglæpa breyttist í kjölfarið hjá borgarbúum,“ segir Vilhjálmur í samtali við blaðamann mbl.is eftir að hann flutti tillöguna á þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi á fimmtudag. 

„Ásamt þeirri stefnu að líða ekki brot koma fleiri mikilvægir þættir til. Fræðimenn sem rannsakað hafa þann árangur sem náðst hefur í New York benda á þátt millistjórnenda hjá lögreglunni.

Síðar varð Bratton lögreglustjóri í NYPD þar sem hann innleiddi CompStat sem er tölfræðikerfi sem enn er í notkun þar sem fjöldi glæpa er tekinn saman vikulega. CompStat er einnig notað til að hafa eftirlit með lögreglustarfseminni. Nýjar tölur eru birtar á heimasíðu lögreglunnar vikulega. Einnig eru haldnir vikulegir fundir á aðallögreglustöðinni í New York þar sem yfirmaður hvers umdæmis fer yfir áætlun sína með yfirstjórn lögreglunnar. Einnig fylgja yfirmenn umdæmanna fyrri fundum eftir. Þessi skýra ábyrgð hefur skapað árangursmiðaða menningu innan stofnunarinnar.

Bryant Park í New York.
Bryant Park í New York. Sonja Pieper/Wikipedia

Mikilvægur þáttur í þessu er að CompStat heldur ekki utan um upplýsta glæpi heldur tilkynnta glæpi. Áhersla er lögð á að koma í veg fyrir glæpi og lækka glæpatíðnina. CompStat hefur nýst við að greina glæpamynstur og forgangsraða í starfi lögreglunnar víðar en í New York. Í þeim borgum sem aðferðin hefur verið notuð hefur glæpatíðni lækkað um 5 til 15 prósent. Þrátt fyrir að mikill munur sé á milli norrænu landanna innbyrðis, sem og á milli þeirra og New York, má draga mikilvægan lærdóm af New York-líkaninu,“ segir í tillögu flokkahóps hægri manna á Norðurlöndum.

AFP

Vilhjálmur segir að ekki hafi verið gerður greinarmunur á þeim sem voru stöðvaðir fyrir að reyna að svindla sér í jarðlestakerfinu og því ekki um mismunun að ræða. Vitað sé að ef ekki er tekið á smáglæpum fylgi stærri glæpir í kjölfarið og umhverfið verður óöruggt þar sem viðurkennt sé að stunda glæpi. „Allir sem greiddu ekki miðann sinn voru stöðvaðir og þá kom í ljós að fimmti hver þeirra var fíkniefnaneytandi og tíundi hver þeirra var vopnaður. Þetta voru aðgerðir sem beindust að öllum, ekki ákveðnum hópum,“ segir Vilhjálmur.

Tillagan var eins og áður sagði flutt á síðasta degi Norðurlandaráðsþingi og að sögn Vilhjálms verður tillagan nú send til allra ríkisstjórna á Norðurlöndum. Í kjölfarið munu þingmenn í hópnum kynna tillöguna í sínu landi og áfram verður rætt um tillöguna á öllum fundum Norðurlandaráðs næsta árið.

William Bratton, fyrrverandi lögreglustjóri í New York.
William Bratton, fyrrverandi lögreglustjóri í New York. Ljósmynd/Wikipedia.org

Upplýsingar um William Bratton á Wikipedia

mbl.is