Jarðhræringar ólíklegur sökudólgur

Myndin er samsett og sýnir Ketubjörg fyrir og eftir hrunið.
Myndin er samsett og sýnir Ketubjörg fyrir og eftir hrunið.

Ekki er hægt að fullyrða hvað hafi valdið hruni bjargs úr Ketubjörgum á norðanverðum Skaga um helgina. Fyrstu athuganir benda til þess að jarðhræringar hafi ekki verið þar að verki.  Erfitt er að spá fyrir um hvenær berg, sem komið er sprunga í, hrynur. Þetta segir Jón Kristinn Helgason, jarðfræðingur á ofanflóðadeild Veðurstofunnar, sem sinnir þar skriðumálum, hættumati og vöktun.

Hugsanlega greindu mælarnir berghrunið

Jarðskjálftafræðingar Veðurstofunnar eiga eftir að fara betur yfir gögn yfir skjálfta á svæðinu, en fyrsta skoðun bendir til þess að jarðhræringar hafi ekki valdið hruninu, að sögn Jóns Kristins. Komið hefur fram að jarðskjálftamælar á Hrauni á Skaga, sem er í um níu kílómetra fjarlægð frá Ketubjörgum, hafi numið óróa, en Jón Kristinn segir líklegra að þeir hafi þar greint hrunið úr berginu. „Vonandi skýrist þetta síðar í vikunni,“ segir hann.

Jón Kristinn Helgason, jarðfræðingur á náttúruvársviði Veðurstofu Íslands.
Jón Kristinn Helgason, jarðfræðingur á náttúruvársviði Veðurstofu Íslands.

Ketu­björg eru um 40 kíló­metra fyr­ir norðan Sauðár­krók. Síðustu miss­eri hef­ur verið að losna um fyllu í bjarg­inu þar sem heit­ir Innri-Bjarga­vík. Það var 2015 eft­ir að klaka­stífla myndaðist á þess­um slóðum sem lækj­ar­vatn fór að smjúga niður í gljúpt mó­bergið svo um það losnaði. 

Klett­ur, um 65 metra hár, gróf sig frá berg­inu og varð frístand­andi. Þar á milli var geil sem breikkaði og var orðin nokkuð á þriðja metra breið uns yfir lauk. Und­ir berg­inu er nú allt að 20 metra hár bing­ur af grjóti og mold.

Jón Kristinn segir að rætt hafi verið við fólk á svæðinu í dag og í þeim samtölum og á myndum sem teknar hafi verið hafi m.a. komið fram að sprungan í berginu hafi gliðnað um 4-5 metra. „Það bendir til þess að bergið hafi verið farið að slúta fram og halla yfir fjöruna. Þegar svo er, eru einhverjar festur í berginu sem halda því, en á einhverjum tímapunkti gefa þær sig síðan og þá hrynur fyllan.“

Fylgst með gliðnun bergs víða um land

Að sögn Jóns Kristins fylgist Veðurstofa Íslands með gliðnun bergs víða um land. Til dæmis sé vöktun í Óshlíð, en þar fannst sprunga í kringum árið 1980. Síðustu áratugi hafa verið skipulagðar mælingar á henni sem sýna að hún gliðnar um örfáa millimetra á ári. Á Svínafellsheiði hafa m.a. verið settir upp togmælar til að mæla gliðnun en einnig er fylgst svæðinu með GPS-tækjum. Ekki hefur verið formleg vöktun við Ketubjörg, en Jón Kristinn segir að fylgst hafi verið náið með þróun mála á svæðinu og að því verði haldið áfram.

Margt getur haft áhrif

Jón Kristinn segir erfitt að nefna einhvern eitt þátt í þessu sambandi. „Það er erfitt að spá fyrir um hvenær berg hrynur; það eru svo margir þættir í svona umhverfi sem geta haft þar áhrif á stöðugleika bergs eins og t.d. fjöldi sprungna og lega þeirra, frost og þíða, brim og úrkoma, svo eitthvað sé nefnt,“ segir hann.

Frá Ketubjörgum á Skaga. Myndin er tekin sumarið 2016.
Frá Ketubjörgum á Skaga. Myndin er tekin sumarið 2016. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert