Enginn sótt um tvær stöður yfirlækna á Reykjalundi

Tvær stöður yfirlækna á Reykjalundi eru lausar til umsóknar.
Tvær stöður yfirlækna á Reykjalundi eru lausar til umsóknar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Engar umsóknir hafa borist um stöðu tveggja yfirlækna á Reykjalundi en störfin voru auglýst um helgina. Staða forstjóra Reykjalundar var einnig auglýst um helgina. 

Staða yfirlæknis á hjartasviði er laus frá og með 1. desember og umsóknarfresturinn er til 17. nóvember. Læknirinn sem gegndi þessari stöðu sagði upp í ágúst. „Jú. Sannarlega,“ segir Guðbjörg Gunnarsdóttir, mannauðsstjóri Reykjalundar, spurð hvort umsóknarfresturinn sé ekki stuttur. 

„Það hafði verið gengið frá því með öðrum hætti að leysa það. En við ákváðum að bregðast við þessu núna með þessum hætti,“ segir Guðbjörg spurð hvers vegna staðan er auglýst laus til umsóknar tæpum þremur mánuðum eftir að læknirinn sagði upp störfum. Hún vildi ekki greina nánar hvernig ákveðið hafi verið að leysa málið upphaflega.  

Staða yfirlæknis á geðheilsusviði hefur einnig verið auglýst. Sú staða er laus frá og með 1. febrúar. Umsóknarfrestur fyrir báðar stöður er til 17. nóvember.  

Fyrirtækið Intellecta tekur á móti umsóknum um starf forstjóra og því hafði Guðbjörg ekki upplýsingar um hversu margir höfðu sótt um starfið.

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvenær aðrar stöður lækna verða auglýstar lausar til umsóknar. Alls hafa tíu lækn­ar af tólf sagt upp störf­um á Reykjalundi frá því í sum­ar.  

mbl.is