Ólíklegt að samið verði fyrir verkföll

„Það er nú einu sinni þannig með kjarasamninga að fólk …
„Það er nú einu sinni þannig með kjarasamninga að fólk semur fyrir rest svo ég vona að það verði sem kostnaðarminnst fyrir þessa fjölmiðla,“ segir Hjálmar. Eggert Jóhannesson

Enginn fundur hefur verið boðaður hjá ríkissáttasemjara í kjaradeilu Samtaka atvinnulífsins (SA) og Blaðamannafélags Íslands (BÍ). Að óbreyttu fer hluti blaðamanna í fjögurra stunda verkfall næsta föstudag. Frekari verkföll eru áætluð í framhaldinu. 

„Það hefur enginn fundur verið boðaður enda engin ástæða til þess að boða fund nema atvinnurekendur séu tilbúnir til þess að bjóða okkur að minnsta kosti það sama og þeir hafa samið um við aðra,“ segir Hjálmar Jónsson, formaður BÍ. 

Spurður hvort BÍ og SA ættu ekki að keppast við að ná samningum þegar verkföll eru handan við hornið segir Hjálmar:

„Við erum boðin og búin til þess að ræða þessa hluti frá öllum hliðum en við gerum auðvitað kröfu um að það sé samið við okkur eins og aðra í þessu samfélagi og við njótum sambærilegra kjarabóta.“

„Fólk semur fyrir rest“

Hjálmar segir að fulltrúar BÍ og SA hafi rætt málin en ekkert hafi komið út úr þeim samræðum. 

Aðspurður segir hann að ef óbreytt ástand haldi áfram muni BÍ og SA ekki ná að semja fyrir fyrstu vinnustöðvun. 

„Það er nú einu sinni þannig með kjarasamninga að fólk semur fyrir rest svo ég vona að það verði sem kostnaðarminnst fyrir þessa fjölmiðla. Við blaðamenn berum okkar fjölmiðla fyrir brjósti en auðvitað stöndum við á okkar réttindum til þes að semja um okkar kjör,“ segir Hjálmar. 

Verkföllin ná til blaða-, frétta- og mynda­töku­manna hjá Árvakri, sem gef­ur út Morg­un­blaðið og mbl.is, Rík­is­út­varp­inu, Sýn, sem rek­ur frétta­stofu Vís­is, Stöðvar 2 og Bylgj­unn­ar, og Torgi, sem gef­ur út Frétta­blaðið og sam­nefnda vefsíðu.

Verk­fallsaðgerðirn­ar verða  á föstu­dög­um í nóv­em­ber­mánuði og taka ein­göngu til net­miðla, ljós­mynd­ara og töku­manna í fyrstu þrjú skiptin. Lengjast verkföllin um fjór­ar klukku­stund­ir í hvert skipt.

Tekið skal fram að blaðamaður og flest­ir aðrir blaðamenn á rit­stjórn mbl.is og Morg­un­blaðsins eru fé­lag­ar í Blaðamanna­fé­lagi Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert