Segja öryggi ekki stefnt í hættu

Útlendingastofnun segir að ekkert hafi komið fram um að flutningur …
Útlendingastofnun segir að ekkert hafi komið fram um að flutningur konunnar úr landi myndi stefna öryggi hennar í hættu og því var fyrirhuguðum flutningi ekki frestað mbl.is/Hjörtur

Í vottorði sem þunguð kona fékk frá Landspítalanum kom ekkert fram um að flutningur  úr landi myndi stefna öryggi hennar í hættu og því var fyrirhuguðum flutningi ekki frestað, segir í tilkynningu frá Útlendingastofnun. 

„Einstaklingum sem synjað hefur verið um alþjóðlega vernd og eiga ekki annan rétt til dvalar hér á landi lögum samkvæmt ber að yfirgefa landið. Þegar ákvörðun í máli er framkvæmdarhæf sendir Útlendingastofnun beiðni um lögreglufylgd til stoðdeildar ríkislögreglustjóra.

Undirbúningur stoðdeildar varðandi tilhögun á lögreglufylgd snýr meðal annars að því að meta stöðu einstaklings í samræmi við heilbrigðisaðstæður. Er það eftir atvikum gert með því að afla vottorðs frá lækni um hvort viðkomandi sé ferðafær. Ef vottorð liggur fyrir um að flutningur einstaklings úr landi muni stefna öryggi hans í hættu þá er flutningi frestað þangað til ástandið breytist. Fyrir því eru fordæmi bæði í tilviki barnshafandi kvenna og einstaklinga sem glíma við veikindi. Þessu verklagi var fylgt í því máli sem nú er til umfjöllunar eins og öðrum.

Samkvæmt upplýsingum frá stoðdeild ríkislögreglustjóra aflaði hún vottorðs frá lækni á heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu um að viðkomandi væri ferðafær. Viðkomandi leitaði síðan sjálf til læknis á kvennadeild Landspítalans þar sem gefið var út annað vottorð og stoðdeild fékk afrit af. Í því vottorði kom ekkert fram um að flutningur viðkomandi úr landi myndi stefna öryggi hennar í hættu og því var fyrirhuguðum flutningi ekki frestað,“ segir í tilkynningu frá Útlendingastofnun.

mbl.is