Segja UTL brjóta Barnasáttmála SÞ

Sigrún Skaftadóttir forman Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar (t.v.) og Nikólína Hildur Sveinsdóttir …
Sigrún Skaftadóttir forman Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar (t.v.) og Nikólína Hildur Sveinsdóttir (t.h.) forseti Ungra jafnaðarmanna. Samsett mynd/Ágústa Sigurlaug Guðjónsdóttir/Davíð Þór Guðlaugsson

Ungir jafnaðarmenn og Kvennahreyfing Samfylkingarinnar fordæma vinnubrögð Útlendingastofnunar (UTL) í máli þungaðrar albanskrar konu sem að öllum líkindum var vísað úr landi í nótt. Segja áðurnefndir aðilar að vinnubrögðin séu brot á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna (SÞ).

„Í gærkvöldi deildu samtökin No Borders Iceland sögu 26 ára gamals hælisleitanda sem á að brottvísa. Hún er komin 9 mánuði á leið. Samtökin sögðu frá því hvernig lögreglan fór gegn læknisráði á kvennadeild LSH, sem kvað á um að konan væri ekki í standi til þess að fljúga, og reiddu fram vottorð frá lækni sem konan þekkti ekki. Í téðu vottorði kom fram að konunni væri óhætt að fljúga. Síðasta uppfærsla í framvindu málsins var kl 5:00 í morgun og kom þar fram að lögregla hefði fært fjölskylduna inn í bíl til þess að keyra upp á flugvöll“, segir í yfirlýsingu frá Ungum jafnaðarmönnum og Kvennahreyfingu Samfylkingarinnar.

„Ungir jafnaðarmenn og Kvennahreyfing Samfylkingarinnar fordæma vinnubrögð Útlendingastofnunar. Það er öllum ljóst að þessi kona og fjölskylda hennar eru í bágri stöðu og ekki í aðstöðu til að finna öryggi fyrir ófætt barn sitt annars staðar en á Íslandi. Enn fremur er ekki ráðlagt að konur fljúgi svo seint á meðgöngu nema læknir votti fyrir það. Það að Útlendingastofnun reiði fram vottorð frá lækni sem þekkir ekki og hefur ekki hitt viðkomandi er afar óábyrgt og raunar skammarlegt af ríkisstofnun að gera.“

Skýr brot á Barnasáttmálanum

Telja Ungir jafnaðarmenn og Kvennahreyfing Samfylkingarinnar að Útlendingastofnun hafi brotið Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna með því að vísa konunni úr landi.

„Í 3. grein Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna segir „skuldbinda aðildarríki sig til að tryggja börnum þá vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst, og skulu þau í því skyni gera allar nauðsynlegar ráðstafanir á sviði löggjafar og stjórnsýslu.“ Vinnubrögð þessara tveggja ríkisstofnana, þ.e. Útlendingastofnunar með aðstoð lögreglu, eru skýr brot á Barnasáttmálanum. Slík brot hafa ítrekað verið framin af þessari stofnun í þeim tilgangi að vísa fólki í bágri stöðu úr landi.“

Krefjast Ungir jafnaðarmenn og Kvennahreyfing Samfylkingarinnar þess að lokum að Barnasáttmálinn sé virtur og brottvísanir stöðvaðar. 

mbl.is