Tónlistarviðburðir þurfa að vera aðgengilegri fyrir ferðamenn

Miðla þarf betur upplýsingum til ferðamanna um tónlistarviðburði sem koma …
Miðla þarf betur upplýsingum til ferðamanna um tónlistarviðburði sem koma hingað til lands. mbl.is/Hari

„Við gætum gert mun meira af því að laða fólk til landsins gagngert til að upplifa tónlistina, hvort sem það er til að koma á slóðir sinna uppáhalds tónlistarmanna, vegna viðburða eða að koma hingað á tónleika þó tónlistarmennirnir séu ekki endilega íslenskir,“ segir María Rut Reynisdóttir, verkefnastjóri tónlistarborgarinnar Reykjavík, um tækifæri í tónlistartengdri ferðaþjónustu. 

Ráðstefnan Music tourism symposium var haldin í dag í Iðnó og héldu íslenskir og erlendir fyrirlesarar erindi. Velt var upp hinum ýmsu flötum, skoðað hver staðan er hér á landi og hvar helstu tækifæri liggja eru svo fátt eitt sé nefnt. Á vinnustofu með Olaf Furniss frá Music Tourist var skoðað hvar tónlistargeirinn og ferðamálaiðnaðurinn eru nú þegar að vinna saman, hvar tækifærin liggja og hvað hægt er að gera til að nýta þau betur.  

„Hróður íslensks tónlistarfólks nær langt út fyrir landsteinana. Það er margt mjög spennandi í gangi hjá okkur. Við erum með góðar hátíðir og almennt séð erum við með mjög blómlegt tónlistarlíf,“ segir María Rut en spyr jafnframt hvort við notum þetta markvisst til að laða að ferðamenn til landsins. 

„Við þurfum að gera viðburði aðgengilegri fyrir fólk. Við þurfum að miðla betur öllu því sem er í gangi. Það er mjög erfitt að átta sig á því hvað er í gangi í borginni því fólk þarf að fara á margar viðburðasíður og helst að vera á Facebook. Þarna er tækifæri að höfða betur til þeirra gesta sem eru nú þegar í borginni svo þeir geti upplifað íslenskt tónlistarlíf,“ segir María Rut. Helst þyrfi að vera ein sameiginleg síða þar sem öllum viðburðum væri safnað saman. 

María Rut vísar til erindis sem Andri Snær Magnason hélt þar sem hann benti á að taka þyrfti tillit til loftslagsbreytinga almennt þegar litið væri til ferðamennskunnar. Reykjavík, lítil borg í litlu landi gæti verið leiðandi í þeim efnum í að endurhugsa ferðamennskuna. „Andri talaði um að í framtíðinni væri fólk að dvelja lengur á hverjum stað og vildi fá meiri snertingu t.d. við tónlistarlífið. Þetta væri áhugavert að skoða hvernig við gætum mögulega verið leiðandi í umhverfisvænni og sjálfbærari ferðamennsku,“ segir hún. 

Hún bindur vonir við að þær hugmyndir og lausnir sem koma upp á ráðstefnunni komi til framkvæmda. 

María Rut Reynisdóttir verkefnastjóri tónlistarborgarinnar Reykjavík
María Rut Reynisdóttir verkefnastjóri tónlistarborgarinnar Reykjavík Ljósmyndari/Juliette Rowland
mbl.is