Varað við mikilli hálku

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. mbl.is/Golli

Mjög hált er á götum og stígum á höfuðborgarsvæðinu og fólk beðið um að fara varlega í morgunumferðinni. Unnið hefur verið að söltun gatna og að sanda stíga frá því klukkan 4 í nótt í Reykjavík, að sögn Halldórs Halldórssonar, verkstjóra í vegaeftirliti hjá Reykjavíkurborg.

Halldór segir að mikil hálka hafi myndast á götum og stígum í gærkvöldi og unnið að söltun og að sanda stíga til miðnættis á vegum borgarinnar. Síðan hafi bílarnir farið út aftur strax klukkan fjögur í nótt. Talið er að búið verði að salta og sanda allar helstu leiðir innan borgarmarkanna áður en þorri borgarbúa fer af stað til vinnu og skóla.

Veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands skrifar á sjötta tímanum á vef Veðurstofunnar að nokkuð víða á landinu megi búast við hálku á vegum, ýmist er um að ræða glærahálku eða snjóþekju.

Að sögn Sigurðar Sigurðssonar, varðstjóra í lögreglunni á Norðurlandi eystra, hefur snjóað á Akureyri og nágrenni í nótt og má búast við að þar sé hált þegar fólk leggur af stað til vinnu og skóla í morgunsárið. 

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurnesjum hafa ekki borist fregnir af mikilli hálku í hennar umdæmi en fólk beðið um að fara varlega.

Vegagerðin varaði við því í gærkvöldi að vetrarfærð er í flestum landshlutum og víða éljagangur. Vegna kólnandi veðurs er varað við mikilli hálku á Suður- og Suðvesturlandi í nótt og nú í morgunsárið.

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni klukkan 6:45 eru vegir greiðfærir á höfuðborgarsvæðinu, á Kjalarnesi og Reykjanesbraut. 

Vetrarfærð er í öllum landshlutm, éljagangur á Norðaustur- og Austurlandi og snjókoma á Suðausturlandi.

mbl.is