Varað við mikilli hálku á stígum

Hálkan er sérstaklega varasöm á göngustígum, hjólreiðastígum inngötum og bifreiðastæðum
Hálkan er sérstaklega varasöm á göngustígum, hjólreiðastígum inngötum og bifreiðastæðum mbl.is/​Hari

Ferðalangar ættu að hafa í huga að hálkan getur leynst víða. Ýmist er hún vegna þess að bleyta gærdagsins hefur frosið í glæran ís, eða vegna snjóþekju. Á suðaustanverðu landinu verður slydda eða snjókoma viðloðandi í allan dag en á Vesturlandi er farið að létta til. Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. 

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar vegfarendur við mikilli hálku sem er víðast hvar í umdæminu. Hún getur verið sérstaklega varasöm á göngustígum, hjólreiðastígum inngötum og bifreiðastæðum. Búið er að salta helstu stofnæðar á höfuðborgarsvæðinu.

„Muna svo að skafa vel af rúðum áður en lagt er af stað út í umferðina. Síðast en ekki síst, það er allt of mikið af bílum sem eru ljóslausir að aftan í umferðinni,“ segir í færslu á Facebook-síðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

„Það er austlæg átt á dagskrá á landinu í dag og vindur yfirleitt hægur, þó gæti hann náð í um 10 m/s á Vestfjörðum og sums staðar með suðurströndinni. Á suðaustanverðu landinu verður slydda eða snjókoma viðloðandi í allan dag.

Á Vesturlandi er farið að létta til og ætti að verða þokkalega bjart þegar kemur fram á daginn. Á norðanverðu landinu hefur verið lítils háttar snjómugga í nótt, en það ætti að stytta upp á næstu klukkustundum og rofa til síðdegis á þeim slóðum. Það er frost um mestallt land, en hiti gæti náð að skríða yfir frostmarkið á sumum stöðum við sjóinn yfir hádaginn.
Ferðalangar ættu að hafa í huga að hálkan getur leynst víða. Ýmist er hún vegna þess að bleyta gærdagsins hefur frosið í glæran ís, eða vegna snjóþekju.

Á morgun og einnig á fimmtudag er áfram útlit fyrir rólegan vind víðast hvar á landinu, úrkomulítið og bjart á köflum.
Að lokum má nefna að spár gera ráð fyrir að hvessi á sunnanverðu landinu á föstudag með úrkomu (rigningu eða slyddu á láglendi), en þurrt og skaplegri vindur norðan til,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Nokkuð víða á landinu má búast við hálku á vegum, ýmist er um að ræða glærahálku eða snjóþekju, segir á vef Veðurstofunnar, og samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er snjóþekja og hálka á vegum á Norðausturlandi, éljagangur nokkuð víða.

Krapi er á Mosfellsheiði og Þingvallavegi, hálka eða hálkublettir nokkuð víða. Allur akstur er nú bannaður á Nesjavallaleið. Hálka er í Borgarfirði og á fjallvegum en hálkublettir á láglendi á Vesturlandi. Vegir eru greiðfærir á höfuðborgarsvæðinu, Kjalarnesinu og á Reykjanesbraut.

Hálka eða snjóþekja á öllum leiðum á Austurlandi og víða er snjókoma eða éljagangur. 
Á Norðurlandi er hálka eða hálkublettir á vegum og víða éljagangur. Hálka á flestum fjallvegum á Vestfjörðum og hálkublettir í Ísafjarðardjúpi og á Ströndum.
Kort/Veðurstofa Íslands

Veðurhorfur næstu daga

Austlæg átt 3-10 m/s. Slydda eða snjókoma með köflum um landið suðaustanvert, en styttir upp og rofar smám saman til norðan- og vestanlands.
Austan 3-8 á morgun og víða þurrt og bjart veður, en 8-13 og él syðst á landinu.
Frost 0 til 8 stig, en lengst af frostlaust með suðurströndinni.

Á miðvikudag:
Austlæg átt 3-8 m/s, úrkomulaust og bjart á köflum, en 8-13 og él með suðurströndinni. Frost 0 til 10 stig, kaldast í innsveitum norðaustanlands, en frostlaust við suður- og vesturströndina.

Á fimmtudag:
Suðlæg átt 3-8 m/s. Dálítil slydda eða snjókoma um tíma á Vestfjörðum og stöku él sunnanlands, en bjart veður á Norður- og Austurlandi. Hiti breytist lítið.

Á föstudag:
Gengur í allhvassa eða hvassa suðaustanátt á sunnanverðu landinu með rigningu eða slyddu. Hiti 0 til 5 stig. Hægari vindur norðan til, þurrt og vægt frost.

Á laugardag:
Austan 8-13, en 13-18 syðst. Bjartviðri norðan- og vestanlands, en rigning eða slydda suðaustan til. Hiti 0 til 5 stig, en vægt frost í innsveitum fyrir norðan.

Á sunnudag og mánudag:
Fremur hæg breytileg átt og víða léttskýjað. Frost 0 til 8 stig, en frostlaust með suður- og vesturströndinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert