Yrði helmingsstækkun á skrifstofurými bankans

Seðlabanki Íslands. Verði húsið hækkað um tvær hæðir jafngildir það …
Seðlabanki Íslands. Verði húsið hækkað um tvær hæðir jafngildir það 1.400 fermetra stækkun. mbl.is/Golli

Engar ákvarðanir hafa verið teknar um hækkun húsnæðis Seðlabanka Íslands við Kalkofnsveg, heldur er eingöngu verið að kanna afstöðu borgaryfirvalda til hækkunar. Þetta segir í svörum Stefáns Jóhans Stefánsson, ritstjóri Seðlabankans, við fyrirspurn mbl.is.

Greint var frá því í Morgunblaðinu í gær skipulagsfulltrúinn í Reykjavík hafi tekið til afgreiðslu umsókn Seðlabankans um hækkun hússins samkvæmt tillögu Arkþings ehf. sem teiknaði húsið á sínum tíma.

Fram kemur í greinargerð Arkþings að sameining Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins hafi verið samþykkt á Alþingi. Fyrirhugað sé að sameina starfsemina undir eitt þak í núverandi hús Seðlabankans. Starfsfólki í húsinu muni við þetta fjölga um u.þ.b. 40% og sé ljóst að stækka þurfi húsið til að rúma starfsemina.

Stefán Jóhann segir fyrirspurn um mögulega hækkun hins vegar eingöngu hafa verið senda á skipulagsfulltrúa svo vinna mætti tíma, ef til þess komi að ákveðið verði að hækka húsið.

1.000 m² myndu bætast við 2.000 m² skrifstofurými

Seðlabankinn er í dag ríflega 13.000 m²  og störfuðu þar í lok síðasta árs 181 starfsmaður. Feli sameiningin við Fjármálaeftirlitið í sér að allir 117 starfsmenn FME flytjast yfir í húsakynni Seðlabankans fjölgar starfsmönnum í húsinu í 298.

Að sögn Stefáns Jóhanns felur mögulega tveggja hæða hækkun í sér að húsakynni bankans stækka um 1.400 m² og færu um 1.000 m² þar af undir skrifstofurými. Nemur það um helmings stækkun á skrifstofurými bankans, þar sem í dag eru um 2.000 m² nýttir undir slíkt. Annar hluti fermetranna 13.000 er geymir síðan bílakjallara, ýmsar geymslur, tölvu- og vélasali, ganga, mötuneyti, borðsal og fundarherbergi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert