„Mannfjandsamleg stefna“

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir það alveg ljóst að …
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir það alveg ljóst að mistök voru gerð í gær þegar óléttri albanskri konu var vísað úr landi. mbl.is/Hari

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður velferðarnefndar, segir stjórnvöld reka „mannfjandsamlega stefnu í málefnum fólks í leit að vernd“. Helga Vala bað dómsmálaráðherra að skýra stefnu ríkisstjórnarinnar í málefnum fólks á flótta í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. 

Tilefni fyrirspurnarinnar er málefni albanskrar fjölskyldu sem var vísað úr landi í gær en konan er geng­in tæp­ar 36 vik­ur með annað barn sitt. Gef­in voru út tvö vott­orð um heilsu kon­unn­ar. Fyrra vott­orðið fékk kon­an nokkr­um dög­um eft­ir að hún hitti lækni göngu­deild­ar heilsu­gæsl­unn­ar sem er með samn­ing við Útlend­inga­stofn­un um lækn­isþjón­ustu við hæl­is­leit­end­ur. Í því vott­orði kem­ur fram að hún sé fær til að fljúga.

Þegar ljóst var í upphafi vikunnar að vísa ætti kon­unni úr landi leitaði hún til meðgöngu­deild­ar Land­spít­al­ans. Þar fékk hún seinna vott­orðið og í því kem­ur fram að hún væri slæm af stoðkerf­is­verkj­um í baki og ætti erfitt með langt flug.     

„Telur hæstvirtur ráðherra að með því að vísa konum á flótta á brott frá landinu í slíku ástandi séu íslensk stjórnvöld að fara að skýrum markmiðum laga sem einmitt segja að hér eigi að tryggja mannúðlega meðferð fólks í leit að vernd?“ spurði Helga Vala Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra. 

Ráðherra sagði áherslu ríkisstjórnarinnar í málaflokknum mjög skýra. „Að mannúðarsjónarmið og alþjóðlegar skuldbindingar verði lögð til grundvallar og að áhersla sé á góða og skilvirka meðhöndlun umsókna um alþjóðlega vernd.“ 

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Olli mér ugg að sjá fréttirnar“

Helga Vala sagði Áslaugu Örnu gera hvað sem hún gat til að koma sér undan því að svara spurningunni, þ.e. hvort hún telji það að vísa úr landi konu á seinni hluta meðgöngu, konu sem gengin er 36 vikur, samræmast mannúðlegri stefnu í málefnum flóttamanna.

„Ég er að biðja hæstvirtan ráðherra um að svara því hvort hún telji rétt að fara gegn eindregnum tilmælum heilbrigðisstarfsmanna, það er Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, sem mælir alls ekki með því að konur fari í flug eftir 32. viku,“ sagði Helga Vala. Hún segir það alveg ljóst að mistök voru gerð í gær „þegar miklu eldra vottorð var tekið fram yfir nýrra vottorð og eindregin tilmæli starfsmanna Landspítala.“

Áslaug Arna benti á að það væri hlutverk heilbrigðisstarfsfólks að meta en ekki lögfræðinga hvenær aðila er stefnt í hættu með því að fara um borð í flugvél og vera vísað af landinu. „Ég er auðvitað mannleg líkt og aðrir þingmenn og það olli mér ugg að sjá fréttirnar. En það lágu fyrir skýr tilmæli heilbrigðisyfirvalda um að það væri ekki hætta á ferðum í þessu máli,“ sagði ráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert