Ríkið hafnar bótakröfu Erlu

Erla Bolladóttir.
Erla Bolladóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ríkislögmaður hefur, fyrir hönd íslenska ríkisins, hafnað bótakröfu Erlu Bolladóttur, eins sakborninga í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu, vegna einangrunarvistar sem Erla var látin sæta árið 1976. Erlu barst bréf þessa efnis í dag frá Andra Árnasyni, settum ríkislögmanni.

Í dag var ríkislögmanni birt stefna Erlu þar sem hún krefst þess að úrskurður endurupptökunefndar um beiðni hennar um að taka upp dóm henn­ar í Guðmund­ar- og Geirfinns­mál­inu, en hún var þar dæmd fyr­ir mein­særi ásamt tveim­ur öðrum, verði ógiltur.

Hinir fimm sak­born­ing­arn­ir í mál­inu fengu mál sín tek­in upp og voru þeir all­ir sýknaðir af sak­fell­ingu fyr­ir mann­dráp í sept­em­ber í fyrra. Erla er eini aðili máls­ins sem er gert að una við dóm sinn óbreytt­an.

Krafan lögð fram í janúar

Krafan var lögð fram í janúar á þessu ári og bótanna var m.a. krafist á þeim grundvelli að margvísleg réttindi hafi verið brotin á Erlu í einangrunarvistinni. Yfirheyrslur yfir henni hafi ekki lotið að þeim röngu sakargiftum sem hún var að endingu sakfelld fyrir og því hafi þær ekki verið tilefni gæsluvarðhaldsins.

„Á grundvelli þessa meðal annars virðist því haldið fram að umbj. yðar hafi verið svipt frelsi að ósekju á tímabilinu 4. maí til 22. desember 1976 og að íslenska ríkinu beri að bæta henni það fjárhagslega og ófjárhagslega tjón sem hún telur sig hafa orðið fyrir vegna hinnar meintu ólöglegu frelsissviptingar, auk lögmannskostnaðar,“ segir í bréfi ríkislögmanns sem mbl.is hefur undir höndum. 

Kröfurnar sagðar fyrndar

Þar segir enn fremur að Erla hafi ekki verið ein þeirra sakborninga í málinu sem fengu dóm sinn endurupptekinn og voru sýknaðir, réttarstaða hennar hafi ekkert breyst frá því sem áður var og gæsluvarðhald sem hún sætti hafi verið í tengslum við tilgreint mannshvarf. Að auki verði „óhjákvæmilega að telja að hvers konar mögulegar kröfur vegna meintrar ólögmætrar frelsisskerðingar“ séu fyrndar. 

Erla segist velta því fyrir sér hvort „fokið hafi í“ settan ríkislögmann, en fyrr í dag var honum birt stefna hennar þar sem hún krefst þess að úrskurður endurupptökunefndar verði felldur úr gildi. „Næstum ári eftir að skaðabótakrafa mín var lögð fram berast viðbrögð frá ríkislögmanni, einmitt á þeim tíma sem honum er birt stefna mín sem honum er falið að verjast fyrir hönd ríkisins og ríkissaksóknara. Skyldi hafa fokið í hann?“ spyr Erla og bætir við að settur ríkislögmaður hafi hafnað því að ræða málið frekar.

„Loksins heyrðist hljóð úr horni“

Hún hefur ítrekað gagnrýnt skort á viðbrögðum frá forsætisráðuneytinu við kröfum hennar. „Það er svo margt sem á hjarta mínu hvílir hvað viðkemur samskiptum mínum við dómsmálakerfið á öllum stigum í nær fjóra og hálfan áratug og nú síðast samskiptaleysi forsætisráðuneytis síðastliðið ár. Loksins heyrðist þó hljóð úr horni og hátt var það,“ segir Erla.

Hún segir bréf ríkislögmanns vekja ýmsar vangaveltur. „En ég læt nægja að nefna sjónarmið hans um fyrningu. Eftir að hann þylur upp rök sín gegn skaðabótakröfu minni bætir hann því við að mál mitt sé fyrnt. Finnst honum þess þurfa? Er hann ekki viss um að önnur rök haldi?“

mbl.is