„Þetta er svona aðeins að þokast“

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB. Ljósmynd/BSRB

„Við höfum náð ákveðnum áfanga varðandi styttingu vinnuvikunnar niður í dagvinnu í samtali við ríkið og síðan funduðum við með sambandinu og borginni í gær og höldum því áfram í vikunni um það hvort hægt sé að ná sambærilegri niðurstöðu.“

Þetta segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, í samtali við mbl.is um stöðuna í kjaraviðræðum félaginu við ríki og sveitarfélög. Fundað var í gær í deilunni við Reykjavíkurborg og Samband íslenskra sveitarfélaga í húsakynnum ríkissáttasemjara.

„Við erum í kjölfarið að horfa til þess að tekið verði upp samtal um styttingu vinnuvikunnar í vaktavinnu og jöfnun launa. Síðan eru fleiri mál eftir en núna erum við að taka þetta í einhverjum skrefum. Þannig að þetta er svona aðeins að þokast en við sjáum ekki enn fyrir endann á þessu samt,“ segir Sonja Ýr enn fremur.

Spurð hvort hún sé bjartsýn á að það takist að lenda kjaradeilunni segir Sonja: „Ég vona að við náum að klára þetta fljótlega en hins vegar eru mjög stór mál eftir eins og vaktavinnan og jöfnun launa á milli markaða þannig að það getur brugðið til beggja hliða í þeim efnum. Það eru helst þessi tvö mál sem eru flóknust og líklega erfiðara að klára en önnur.“

mbl.is