Vél Icelandair til Berlínar snúið við

Þotur Icelandair. Mynd úr safni.
Þotur Icelandair. Mynd úr safni.

Farþegaþotu Icelandair sem var á leið til Berlínar nú í morgun var snúið við skömmu eftir flugtak og var rautt viðvörunarstig gefið út á Keflavíkurflugvelli þegar tilkynning barst frá flugstjóranum.

Brunaboði um borð fór í gang og fannst væg reykjarlykt í vélinni.

Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, segir í samtali við mbl.is, vélina hafa lent án vandkvæða en slökkvilið og sjúkraflutningamenn voru í viðbragðsstöðu er vélin kom inn til lendingar.

„Síðan hefur vélin að ég geri ráð fyrir verið yfirfarin hjá Icelandair,“ segir Guðjón.

Á vef Keflavíkurflugvallar er nú gert ráð fyrir að flug Icelandair til Berlínar fari í loftið klukkan 9.10.

mbl.is