Vetrarfærð og allt að tíu stiga frost

mbl.is/Hari

Vetrarfærð er í öllum landshlutum en þó er greiðfært á köflum um suðvestan- og vestanvert landið, að því er fram kemur á vef Vegagerðarinnar. Spár gera ráð fyrir frosti um allt land næsta sólarhringinn, nema frostlausu að deginum við suður- og vesturströndina.

Annars staðar verður frost á bilinu 1 til 10 stig, kaldast fyrir norðan.

Suðlæg eða breytileg átt 3-8 m/s á morgun og dálítil él á víð og dreif, einkum norðvestantil, en léttskýjað norðaustanlands. Bætir í vind vestast annað kvöld.

Veðurhorfur um helgina:

Á föstudag:
Gengur í suðaustan og austan 15-23 m/s á sunnanverðu landinu með rigningu eða slyddu á láglendi. Hiti 1 til 5 stig. Hægari vindur norðantil, þurrt og minnkandi frost.

Á laugardag:
Austan 10-18 m/s, hvassast á Suðausturlandi. Rigning eða slydda á láglendi á suðurhelming landsins, en hægari og þurrt á norðanverðu landinu. Hiti 0 til 5 stig, en vægt frost norðanlands.

Á sunnudag:
Ákveðin suðaustanátt og rigning eða slydda með köflum, en þurrt um N-vert landið. Heldur hlýnandi.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is

Bloggað um fréttina