Dæmdur fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás á Októberfest

Sveinn Aron Sveinsson réðst á fórnarlamb sitt á bílastæði við …
Sveinn Aron Sveinsson réðst á fórnarlamb sitt á bílastæði við Sæmundargötu helgina sem Októberfest var haldin fyrir tveimur árum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag Svein Aron Sveinsson í níu mánaða fangelsi, þar af sjö mánuði skilorðsbundna, fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás á bílastæði við Sæmundargötu í Reykjavík í september fyrir tveimur árum.

Var þetta helgina þegar Októberfest fór fram í tjöldum fyrir framan Háskóla Íslands. Sveinn Aron var auk þess dæmdur til að greiða fórnarlambi sínu 700 þúsund krónur í bætur.

Sveinn Aron viðurkenndi að hafa ráðist að manni sem féll til jarðar og þar sem hann lá á jörðinni sparkað ítrekað í höfuð hans. 

Fórnarlambið hlaut dreifða heilaáverka auk annarra áverka og blæðinga.

Fram kemur í dómi að við ákvörðun refsingar sé litið til þess að Sveinn Aron játaði sök greiðlega, viðurkenndi skaðabótaskyldu og hefur hreinan sakaferil. Auk þess varð nokkur dráttur á málinu sem ekki er honum að kenna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert