Erla stefnir ríkinu

Erla Bolladóttir.
Erla Bolladóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Erla Bolladóttir hefur stefnt ríkissaksóknara og íslenska ríkinu þar sem hún krefst þess að úrskurður endurupptökunefndar í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu um að hafna endurupptöku máls hennar, verði felldur úr gildi. Þingfesting í málinu fór fram við Héraðsdóm Reykjavíkur klukkan 10 í morgun.

Sigríði Friðjónsdóttur ríkissaksóknara, Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra var stefnt í dómsal til fyrirsvars. Í stefnunni segir að nefndin hafi brotið fjölmörg lög með því að hafna því að mál Erlu yrði tekið upp. 

„Ákærða Erla er fundin sek um rangar sakargiftir, sem voru til þess fallnar að valda velferðarmissi fjögurra manna.“ 

Erla Bolladóttir í réttarsal við meðferð málsins fyrir Hæstarétti árið ...
Erla Bolladóttir í réttarsal við meðferð málsins fyrir Hæstarétti árið 1980.

Þannig er dómurinn yfir Erlu orðaður í dómi Hæstaréttar frá árinu 1980. Og það er þessi dómur sem stefnan fjallar um, en með fyrirtökunni í morgun var enn eitt skrefið stigið í þessu áratugalanga sakamáli og meðferð þess. Ríkissaksóknara er stefnt þar sem embættið átti aðild að endurupptökumálinu og stefna á hendur forsætisráðherra byggir á því að hún hefur komið fram fyrir hönd ríkisins í þeim viðræðum um sættir sem fram hafa farið að undanförnu að því er fram kemur í stefnunni sem mbl.is hefur undir höndum. 

Hún er undirrituð af Ragnari Aðalsteinssyni, lögmanni Erlu, og Andra Árnasyni, settum ríkissaksóknara.

Segja að nefndin hafi snemma tekið ákvörðun

Þar segir að líkleg skýring á höfnun endurupptökunefndar sé að hún hafi snemma í ferlinu komist að þeirri niðurstöðu að samþykkja ekki endurupptöku vegna rangra sakargifta. Dóm­arn­ir fyr­ir morðin á Guðmundi og Geirfinni voru tekn­ir upp með ákvörðun nefndarinnar í fe­brú­ar 2017 og í fyrra­haust voru Sæv­ar, Kristján, Tryggvi Rún­ar Leifs­son, Al­bert Kla­hn Skafta­son og Guðjón Skarp­héðins­son sýknaðir af þeirri ákæru.

Í stefnunni eru vinnubrögð endurupptökunefndar gagnrýnd harðlega, en Erla byggir kröfu sína á því að niðurstaða nefndarinnar fái hvorki staðist stjórnsýslulög, meginreglur stjórnsýsluréttar né skilyrði fyrir endurupptöku mála. Þá hafi grundvallarréttindi hennar verið brotin við meðferð málsins. Við meðferðina og með ákvörðun sinni hafi nefndin brotið gegn öryggisreglum stjórnsýsluréttarins, þar á meðal rannsóknarreglunni og andmælareglunni.

„Allt leiðir þetta til þess að ógilda verði ákvörðunina“

Auk þess hafi jafnræðis ekki verið gætt. Þá hafi nefndin ekki gætt nægilega vel að lögmætisreglunni, reglunni um málefnaleg sjónarmið, meðalhóf og skyldu til rökstuðnings. Endurupptökunefnd hafi ekki tekið afstöðu til áhrifa þess hvernig framburðar Erlu var aflað með óheiðarlegum og ólöglegum hætti, að rannsóknarmenn og dómarar beittu hana refsiverðri háttsemi og þá var ekki tekið tillit til nýrra sönnunargagna.

Frá uppkvaðningu eftir að endurupptökunefnd tók upp mál þeirra sem ...
Frá uppkvaðningu eftir að endurupptökunefnd tók upp mál þeirra sem höfðu verið dæmdir fyrir morðin á Guðmundi Einarssyni og Geirfinni Einarssyni. Haraldur Jónasson/Hari

Því til viðbótar hafi endurupptökunefnd ekki tekið tillit til framburðar tveggja réttarsálfræðinga. Annars konar sönnunarmati hafi verið beitt um þau sakarefni sem Erla var dæmd fyrir en önnur sakarefni í málinu, henni í óhag. Sérkennilegt sé að endurupptökunefnd hafi viðurkennt stórfellda annmarka á meðferð lögreglurannsóknarinnar og dómsmeðferð á öllum öðrum sviðum málsins nema þeim sem sneri að röngu sakargiftunum.

„Allt leiðir þetta til þess að ógilda verði ákvörðunina, enda synjaði nefndin ranglega beiðni stefnanda um endurupptöku,“ segir í stefnunni. Þar er enn fremur lögð áhersla á að settur ríkissaksóknari hafi ekki lagst gegn endurupptökubeiðni Erlu en með því taki endurupptökunefndin afstöðu gegn málsaðilum sem báðir eru samþykkir endurupptökunni. 

Óljóst hverjar hinar röngu sakargiftir voru

Í ákæru í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu sem Erla var sakfelld fyrir 1980 segir að það hafi verið samantekin ráð hennar, Sævars Ciecielski og Kristjáns Viðars Viðarssonar að bera Einar Bollason, Magnús Leópoldsson, Sigurbjörn Eiríksson og Valdimar Olsen þeim sökum að þeir hafi átt hlut að dauða Geirfinns Einarssonar og smyglbrotum. Í kjölfar sakargiftanna var þessum fjórum mönnum gert að sæta langvinnu gæsluvarðhaldi. Í ákærunni eru tilgreindar þær dagsetningar sem Erla er sögð hafa borið þessa sök á mennina, en hluta þess tímabils sat hún í gæsluvarðhaldi.

Frá meðferð Guðmundar- og Geirfinnsmálsins í Hæstarétti árið 1980. Erla ...
Frá meðferð Guðmundar- og Geirfinnsmálsins í Hæstarétti árið 1980. Erla situr á fremsta bekk.

Í stefnunni segir að ekki sé gerð nein grein fyrir því í ákærunni á hvern hátt Erla, Sævar og Kristján Viðar báru þessar sakir á mennina fjóra. „Ákæran bar ekki með sér neina lýsingu byggða á meintum játningum ákærðu eða framburði vitna á því hverjar hinar röngu sakargiftir voru. Hvorki í ákæru né í dómi sakadóms eða Hæstaréttar kemur fram hvort hlutdeildin fólst í aðgerðaleysi eða beinum aðgerðum. Þá er þess ekki getið að ósannað var að Geirfinnur hefði látist umræddan dag á umræddum stað“, segir í stefnunni.

Hvorki verði af ákærunni né forsendum hæstaréttardómsins ráðið hvað Erla, Sævar og Kristján Viðar gáfu mönnunum að sök eða hvaða rangar sakargiftir þau báru á þá, þ.e. á hvern hátt þeir hafi átt hlut að dauða Geirfinns Einarssonar eða staðið að smyglbrotum. „Þrátt fyrir þessa annmarka á ákærunni og dómum sakadóms og Hæstaréttar taldi endurupptökunefnd ekki uppfyllt skilyrði þess að endurupptaka hæstaréttarmálið að því er varðar sakaráfall fyrir rangar sakargiftir,“ segir í stefnunni. 

Skilyrði fyrir gæsluvarðhaldi ekki uppfyllt

Þá er þar bent á að hvorki Erla, Sævar né Kristján hafi gefið skýrslur fyrir dómi áður en mennirnir fjórir voru settir í gæsluvarðhald. Skilyrði gæsluvarðhalds mannanna fjögurra voru því ekki uppfyllt, segir í stefnunni.

Þar er framburður Erlu frá árinu 1976 rakinn. Fram kemur að hún hafi í engu tilviki, hvorki fyrir lögreglu né dómi, borið að áðurnefndir fjórir menn hafi átt hlut að dauða Geirfinns eða smyglbrotum. Frásögn hennar af viðveru þriggja þeirra í dráttarbrautinni ásamt fleirum feli ekki í sér rangar sakargiftir því hún hafi ekki borið á þá neitt refsivert brot. Skilyrði rangra sakargifta sé að sá sem í hlut á staðhæfi að viðkomandi hafi drýgt tiltekið refsivert brot og endurupptökunefnd hafi yfirsést þetta mikilvæga atriði. Þá hafi hún aldrei haldið því fram að einn þeirra, Valdimar Olsen, hafi farið til Keflavíkur þennan umrædda dag eða að hann hafi verið í dráttarbrautinni. 

Dráttarbrautin í Keflavík sem mjög kom við sögu í málinu.
Dráttarbrautin í Keflavík sem mjög kom við sögu í málinu. Ljósmynd/Morgunblaðið

Þrátt fyrir það gefur endurupptökunefnd sér að Erla hafi borið rangar sakir á fjóra menn. „Þar sem stefnandi bar ekki rangar sakir á Valdimar var endurupptökunefnd skylt að fallast á endurupptökubeiðni stefnanda,“ segir í stefnunni.

Ágalli og mótsagnir

Í stefnunni kemur fram að árið 2016, þegar á meðferð málsins stóð fyrir endurupptökunefnd,  hafi komið fram sönnunargögn sem sýndu fram á að kvöldið sem talið er að Geirfinnur hafi horfið, hafi Sævar verið með fjarvistarsönnun, því hafi hann ekki verið í dráttarbrautinni og heldur ekki Erla. Engu að síður hefði endurupptökunefnd talið að Erla gæti borið um veru annarra manna þar, þeirra á meðal áðurnefndra fjórmenninga. Þarna sé verulegur ágalli og mótsagnir í meðferð nefndarinnar. 

Erla var heimsótt ótt og títt

Í stefnunni segir að endurupptökunefnd hafi ekki tekið neitt tillit til þess að Erla var undir sífelldri ásókn rannsakenda á heimili sínu í byrjun árs 1976.  Þar var hún með nýfætt barn sitt, var afar einangruð og dómarafulltrúi og rannsóknarlögreglumenn hafi notfært sér þessa stöðu Erlu og heimsótt hana „ótt og títt þegar hún var ein heima með barni sínu“. Í stefnunni segir að þessi háttsemi lögreglu falli undir ómannlega og vanvirðandi meðferð og þannig sé augljóst að lögmæt rannsókn hefði átt að leiða til endurupptöku. 

„Stefnanda var ljóst að færi svo að hún segði eitthvað sem ekki þóknaðist rannsóknarmönnum gæti farið svo að hún yrði sett í gæslu að nýju og fengi þá ekki samkvæmt fyrri reynslu að sjá barnið,“ segir í stefnunni.

Sexmenningarnir sem voru sakfelldir. Efri röð f.v.: Sævar Ciesi­elski, Erla ...
Sexmenningarnir sem voru sakfelldir. Efri röð f.v.: Sævar Ciesi­elski, Erla Bolladóttir og Kristján Viðar Viðarsson. Neðri röð f.v.: Tryggvi Leifsson, Albert Kla­hn Skaftason og Guðjón Skarphéðinsson. mbl

Reyndi í örvæntingu að játa á sig morð

Samkvæmt stefnunni voru engar skýrslur gerðar um þessar óformlegu og óbókuðu heimsóknir, enda séu þær andstæðar fyrirmælum í lögum um meðferð opinberra mála. Þá hafi fjölmargar skýrslur verið teknar af Erlu án þess að gögn um þær fyrirfinnist. Hafa verði öll þessi óskráðu samtöl og óformlegu yfirheyrslur í huga og áhrif þeirra þegar framburðurinn sé metinn. Ekki liggi fyrir að hve miklu leyti rannsakendur töldu henni trú um að hún hefði upplifað atvik og atburði og er þar átt við svokallað minnisvafaheilkenni.

„Stefnandi var ekki í raun frjáls manneskja á þessum tíma,“ segir í stefnunni. „Hún var beitt nauðung af lögreglumönnunum tveimur og rannsóknardómaranum. Sú nauðung var meðal annars fólgin í heimsóknum og óformlegum yfirheyrslum á heimilinu og hins vegar í tíðum ferðum í Síðumúlafangelsi og í líkfundarferðum [...]  Þessi nauðung og áhrif hennar ágerðist og lauk með því að hún reyndi í örvæntingu sinni að játa á sig að hafa drepið Geirfinn Einarsson [...] Hún upplifði að af tvennu illu væri það betri kosturinn að láta dæma sig í langvarandi fangelsi fyrir morð en þola þær aðstæður sem rannsakendur höfðu skapað henni. Þetta sýnir að sú afstaða endurupptökunefndar, að hún hafi á þessu tímabilli verið frjáls, var ekki rétt.“

Voru ekki tryggðar samvistir við barnið sitt

Þá segir í stefnunni að engin hliðsjón hafi verið höfð af því við meðferð Erlu, þegar hún var handtekin og sett í gæsluvarðhald í maí 1976, að hún var ung móðir með um hálfs árs gamalt barn. Henni voru ekki tryggðar samvistir og umgengni við barnið með reglubundnum hætti. Ekkert tillit var tekið til þess að þarfir kvenna í fangelsi væru aðrar en karla og enginn kvenfangavörður var að störfum í Síðumúlafangelsi.

Myndin er tekin þegar starfshópur um Guðmundar- og Geirfinnsmál kynnti ...
Myndin er tekin þegar starfshópur um Guðmundar- og Geirfinnsmál kynnti niðurstöður skýrslu sinnar á fjölmennum blaðamannafundi í innanríkisráðuneytinu í lok mars 2013. mbl.is/Rósa Braga

Framburður sálfræðinga sniðgenginn

Í stefnunni er það gagnrýnt að endurupptökunefnd hafi sniðgengið framburð tveggja réttarsálfræðinga, þeirra Jóns Friðriks Sigurðssonar og Gísla Guðjónssonar, en þeir sögðu m.a. að ótrúverðugt væri að það sem eftir Erlu var haft á þessu tímabili væri frá henni sjálfri komið. Endurupptökunefnd hafi lagt mikla áherslu á að Erla hefði verið utan fangelsis þegar hún bar sakir á mennina, en niðurstaða sálfræðinganna hafi verið að hún hafi ekki verið í betri aðstöðu til að andæfa áhrifum rannsóknarmannana utan fangelsis en innan þess. „Endurupptökunefnd áttar sig ekki á þeim aðstæðum sem stefnandi var í,“ segir í stefnunni. „Örvilnunin gat leitt til og leiddi til rangra framburða sem rannsakendur bera ábyrgð á.“

Dómkröfur Erlu eru að úrskurður endurupptökunefndar frá 24. febrúar 2017 um að hafna beiðni hennar um endurupptöku hæstaréttarmálsins nr. 214/1978, sem kveðinn var upp í Hæstarétti Íslands 22. febrúar 1980, hvað varðar sakfellingu stefnanda fyrir brot á 1. málsgrein 14. grein almennra hegningarlaga nr. 19/1940 verði ógiltur. Enn fremur krefst Erla greiðslu alls málskostnaðar úr hendi stefndu. Ríkinu var veittur frestur til 19. desember til að leggja fram greinargerð í málinu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina