Skimun og skoðun frá Krabbameinsfélaginu

Ljósmynd/Krabbameinsfélagið

Stefnt er að því að öll skimun fyrir krabbameini í brjóstum og leghálsi verði færð frá Krabbameinsfélaginu eftir rúmt ár. Fram kemur á fréttavef Ríkisútvarpsins að Landspítalinn og Sjúkrahúsið á Akureyri muni þá taka yfir brjóstaskoðun og heilsugæslustöðvar taka yfir skimun fyrir leghálskrabbameini.

Samningur heilbrigðisyfirvalda við Krabbameinsfélag Íslands um skimun fyrir krabbameini rennur út í lok árs 2020 en sérstakt skimunarráð var sett á laggirnar í þeim tilgangi að fjalla um framtíðarfyrirkomulag krabbameinsleitar. Ákvörðun liggur nú fyrir. Þetta kemur fram í skriflegu svari við fyrirspurn Ríkisútvarpsins.

Skimunarráðið hafði áður lagt til í mars að Krabbameinsfélagið sæi áfram um brjóstaskoðun. Haft er eftir Óskari Reykdalssyni, forstjóra Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, að markmiðið sé að fá fleiri konur til að koma í skimun, þá einkum ungar konur, þannig að hægt verði að finna fleiri á forstigum og reyna að lækka dánartíðni af völdum leghálskrabbameins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert