Stundin og BÍ undirrituðu kjarasamning

Frá undirritun samningsins í dag. Hjálmar Jónsson, formaður blaðamannafélagsins (t.v.) …
Frá undirritun samningsins í dag. Hjálmar Jónsson, formaður blaðamannafélagsins (t.v.) ásamt ritstjórum Stundarinnar, Ingibjörgu D. Kjartansdóttur og Jóni Trausta Reynissyni. Ljósmynd/Blaðamannafélag Íslands

Blaðamannafélag Íslands og Útgáfufélag Stundarinnar skrifuðu undir kjarasamning í dag, en samningurinn er í „öllum aðalatriðum“ samhljóða samningum Blaðamannafélagið hefur gert að undanförnu við Birtíng og Kjarnann. Þetta kemur fram á vef Blaðamannafélagsins.

Þar er haft eftir Jóni Trausta Reynissyni, framkvæmdastjóra Stundarinnar, að stjórnendur miðilsins skori á önnur fjölmiðlafyrirtæki um að „freista þess að hagræða með öðrum hætti en launum starfandi blaðamanna.“

„Þó svo að fjölmiðlafyrirtæki eigi erfitt með að borga há laun er ýmislegt hægt að gera til þess að hindra atgervisflótta úr blaðamennsku. Það skiptir miklu máli fyrir allt samfélagið, því besta leiðin til að tryggja gagnsæi og gott upplýsingaflæði til almennings er að viðhalda sterkum kjarna af íslenskum fagblaðamönnum sem geta lifað fjárhagslega sjálfbæru lífi. Auk þess hvetjum við stjórnvöld til þess að tryggja að starfsaðstæður íslenskra fjölmiðla og blaðamanna nálgist aðrar norrænar þjóðir, bæði réttarfarslega og fjárhagslega,“ er haft eftir Jóni Trausta á vef Blaðamannafélagsins.

Enn ósamið við aðra

Fram kemur á vef félagsins að viðræður við aðra smærri fjölmiðla, svo sem DV, Bændablaðið og Viðskiptablaðið gangi vel, þó þær hafi ekki enn leitt til niðurstöðu.

Boðuð fjögurra tíma vinnustöðvun félagsmanna Blaðamannafélagsins hjá fjórum stærstu fjölmiðlafyrirtækjum landsins, sem hafa veitt Samtökum atvinnulífsins samningsumboð í viðræðum við blaðamenn, hefst kl. 10:00 í fyrramálið.

mbl.is