64% fýla voru með plast í meltingarvegi

Þetta plast fannst í meltingarvegi fýla við Ísland.
Þetta plast fannst í meltingarvegi fýla við Ísland. Ljósmynd/Umhverfisstofnun

Um 64% fýla voru með plast í meltingarvegi, þar af um 13% með yfir 0,1 gramm. Að meðaltali voru 3,7 plastagnir í hverjum fýl. Meðalþyngd plastsins var 0,12 g/fýl, sem er sambærilegt við niðurstöður ársins 2018. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem Náttúrustofa Norðausturlands gerði á magni plasts í maga fýla að beiðni Umhverfisstofnunar sem greinir frá niðurstöðunum. 

Magnið er örlítið minna en komið hefur fram í eldri rannsóknum á plasti í fýlum hér við land. Magn plasts er yfir þeim mörkum sem OSPAR stefnir að og felur í sér að innan við 10% fýla hafi yfir 0,1 g af plasti í meltingarvegi. Plast í maga fýla er notað sem umhverfisvísir hjá OSPAR til að meta magn plasts í yfirborði sjávar.

Hins vegar virðist vera minna magn af plasti í fýlum hér við land samanborið við fýla á öðrum hafsvæðum við Norður-Atlantshaf, miðað við niðurstöður rannsókna síðustu tveggja ára. 

Vöktun plasts í meltingarvegi fýla við Ísland hófst árið 2018. Alls var 53 fýlum safnað á línubátum út af Vestfjörðum og Norðausturlandi í þessari rannsókn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert