Andlát á Hrafnistu til embættis landlæknis

Hrafnista á Hraunvangi í Hafnarfirði.
Hrafnista á Hraunvangi í Hafnarfirði. Ljósmynd/Aðsend

Stjórnendum Hrafnistu þykir leitt að heyra af upplifun ættingja manns sem lést á Hrafnistu í Hraunvangi í Hafnarfirði 31. október. Sandra Gunnarsdóttir, barnabarn Ingólfs Árna Jónssonar, sem lést, skrifaði Facebook-færslu um málið en hún segir að vanræksla starfsfólks hafi átt stóran hlut að máli.

Sandra skrifaði langa Facebook-færslu um málið þar sem hún segir að undirmannað hafi verið á deildinni þar sem Ingólfur var á Hrafnistu kvöldið sem hann lést og að enginn læknir hafi verið á vaktinni.

Í yfirlýsingu Hrafnistu vegna málsins segir að upplifun ættingja sé ekki lýsing á raunverulegri atburðarás. Andlát beri að með mismunandi hætti og þar ráði margir mismunandi þættir.

Hrafnista ber fulla virðingu fyrir tilfinningum aðstandenda og íbúa og reynir heilbrigðisstarfsfólk sitt allra besta til að umgangast alla af fyllstu nærgætni. Í því tilviki sem hér er gert að umtalsefni var verk- og gæðaferlum fylgt af vakthafandi heilbrigðisstarfólki Hrafnistu og gætt var samráðs við íbúa og aðstandendur í ferlinu. Samkvæmt verkferlum verður send tilkynning um málið til Embættis landlæknis,“ segir í yfirlýsingunni.

Sandra segir að þessi yfirlýsing breyti engu og að hún viti hvað hún sá. Hrafnista hafi til að mynda enn ekki svarað því af hverju enginn læknir var á vaktinni.

mbl.is