Báturinn laus af strandstað

Björgunarskip frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg. Mynd úr safni.
Björgunarskip frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg. Mynd úr safni. mbl.is/Sigurður Mar Halldórsson

Björgunaraðilar eru nú komnir á Riftanga þar sem bátur með tveimur mönnum um borð strandaði í morgun og náði björgunarskipið Gunnbjörg frá Raufarhöfn að draga línubátinn af strandstað.

Að sögn Davíðs Más Bjarnasonar, upplýsingafulltrúa hjá Landsbjörg, var nærliggjandi bátur, Geir, kominn á vettvang um kortér fyrir átta í morgun. Skömmu síðar kom hópur frá björgunarsveit á Raufarhöfn á bíl á staðinn og eru björgunarsveitarmenn nú komnir landleiðina niður í fjöru og eru staddir um 100 metra frá bátnum.

Björgunarskipið Gunnbjörg frá Raufarhöfn rétt ókomið á vettvang er mbl.is ræddi við Davíð Má. „Það má segja að mesta hættan sé yfirstaðin,“ segir Davíð Már.

Mennirnir tveir eru enn um borð í bátnum og verið er að meta stöðuna, hvort það eigi að freista þess að draga bátinn út. Aðstæður á strandstað eru góðar og er logn á staðnum.

Að sögn Davíðs Más er að flæða að og hafi ekki komið leki að bátnum kann að reynast mögulegt að draga hann til hafnar. „Síðustu fréttir voru þær að ekki væri kominn leki að honum,“ segir hann.

Rifstangi er nyrst á Melrakkasléttu, norður af Raufar­höfn.

Uppfært 08.58: Báturinn er nú laus af strandstað að því er fram kemur í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni, en það var björgunarskipinu Gunnbjörgu sem tókst að draga línubátinn af strandstað. Er nú verið að sigla með bátinn til Raufarhafnar.

TF-GRO, þyrla Landhelgisgæslunnar, sem kölluð hafði verið út var þá afturkölluð og sem og aðrar bjargir. 

mbl.is