Borgarstjórn minntist Birgis Ísleifs Gunnarssonar

Birgir Ísleifur Gunnarsson.
Birgir Ísleifur Gunnarsson. mbl.is/Golli

Pawel Bartoszek, forseti borgarstjórnar, minntist Birgis Ísleifs Gunnarssonar í upphafi borgarstjórnarfundar á þriðjudag og rakti feril hans í borgarmálunum. Birgir Ísleifur var borgarstjóri, alþingismaður, ráðherra og seðlabankastjóri. Eins og greint hefur verið frá lést hann aðfaranótt sl. mánudags á líknardeild Landspítalans, 83 ára að aldri. 

Í ræðu sinni í borgarstjórn sagði Pawel: „Árin 1972-1978 var Birgir borgarstjóri í Reykjavík og var hann vinsæll og vel látinn meðal borgarbúa. Árið 1979 var Birgir kjörinn á þing fyrir Reykvíkinga og sat þar til 1991. Hann gegndi ýmsum mikilvægum störfum á þeim vettvangi, m.a. sem menntamálaráðherra frá 1987-1988. Árið 1991 tók hann við embætti Seðlabankastjóra, sem hann gegndi til ársins 2005.

Nær alla starfsævi sína, frá ungum aldri, tók Birgir Ísleifur Gunnarsson mikinn þátt í stjórnmálastarfi og var hann jafnan valinn til forystustarfa meðal stúdenta, ungra sjálfstæðismanna, í borgarstjórn og á Alþingi. Í Seðlabankanum átti hann einnig farsælan feril.

Fyrir hönd borgarstjórnar sendi ég fjölskyldu og vinum Birgis innilegar samúðarkveðjur og þakka fyrir framlag hans í þágu borgarinnar og okkar allra.“

Borgarfulltrúar minntust Birgis Ísleifs með því að rísa úr sætum. Útför hans fer fram frá Hallgrímskirkju í dag. 

Í Morgunblaðinu í dag má lesa fjölda minningargreina um Birgi Ísleif Gunnarsson. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert