Búseta önnur en sófinn ekki sjálfgefin

Fangelsið á Hólmsheiði.
Fangelsið á Hólmsheiði. mbl.is/Hari

Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, segir að margt gott og nauðsynlegt hafi komið fram í morgunkaffi velferðarsviðs í morgun, en þar var fjallað um málefni fanga að afplánun lokinni.

Í framhaldinu verður sett af stað vinna við að móta tillögur velferðarsviðs að bættri félagslegri þjónustu við fanga. „Við eigum gott samstarf við Afstöðu en velferðarráð veitti félaginu styrk, 2,5 milljónir á árinu,“ segir Regína.

Fram kom í máli Guðmundar Inga Þóroddssonar, formanns Afstöðu, að auka þyrfti aðstoð við fanga að lokinni afplánun, ekki síst þegar kæmi að húsnæðismálum og fjárhagsaðstoð. Þorlákur Ari Ágústsson talaði einnig um hversu flókið það hefði verið þegar hann losnaði úr fangelsi að sækja sér aðstoð en Reykjavíkurborg hefur gert þar bragarbót á.

Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.
Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. mbl.is/Hari

Að sögn Regínu er í dag hægt að sækja um fjárhagsaðstoð á einfaldan hátt í gegnum símann og koma nú um 40% umsókna þannig. Stefnt er að því að það hlutfall verði 90%.

Sjá nánar hér

Marg­ir fang­ar eru hús­næðis­laus­ir þegar afplán­un lýk­ur og oft fara þeir á sóf­ann – sem er oft kallaður skiptimiði  seg­ir Guðmund­ur og vís­ar til þess að oft líður stutt­ur tími þangað til neysla og glæp­ir hefjast að nýju. Að vera á sóf­an­um er að gista hjá vin­um og ætt­ingj­um.

Hann seg­ir að Afstaða hafi rætt um að byggja sér­blokk­ir fyr­ir fyrr­ver­andi fanga en kom­ist að þeirri niður­stöðu að það væri ekki gott. Senni­lega vildu margir síður búa í fanga­blokk­inni, ekki síst barna­fólk.

Þor­lák­ur Ari Ágústs­son mál­ari og Dögg Hilm­ars­dótt­ir, fé­lags­ráðgjafi hjá meðferðarsviði …
Þor­lák­ur Ari Ágústs­son mál­ari og Dögg Hilm­ars­dótt­ir, fé­lags­ráðgjafi hjá meðferðarsviði Fang­els­is­mála­stofn­un­ar, voru með er­indi í vel­ferðarkaffi vel­ferðarráðs. mbl.is/​Hari

Að sögn Guðmundar eru fjög­ur atriði sem skipta fanga máli þegar afplán­un lýk­ur. At­vinna, heim­ili, fjár­mál og fjöl­skylda. Þegar fang­ar koma út úr fang­elsi eru þeir í flest­um til­vik­um alls­laus­ir, hvorki með meðmæli né reynslu þannig að það er mjög erfitt fyr­ir þá að fá vinnu. Und­an­tekn­ing­ar­laust þurfa þeir að sýna sak­avott­orð og að sögn Guðmund­ar eru það helst ríki og sveit­ar­fé­lög sem fara fram á sakavott­orð og skipt­ir engu hvert starfið er.

Regína bendir á varðandi framvísun sakavottorðs að þau hjá velferðarsviðinu séu með mjög viðkvæman málaflokk þar sem þau sendi fólk inn á heimili. „Margir þeirra sem við erum að þjónusta eru berskjaldaður hópur, fatlað fólk, eldri borgarar, börn og unglingar,“ segir Regína. 

Dögg Hilmarsdóttir, félagsráðgjafi hjá meðferðarsviði Fangelsismálastofnunar, segir að meginverkefni Fangelsismálastofnunar sé að fullnusta dóma með sem skilvirkustum og öruggustum hætti. „Í mínum huga er alveg ljóst að Fangelsismálastofnun getur ekki unnið þetta í einhverju tómarúmi,“ segir hún og að mikilvægt sé að fá stuðning frá samfélaginu.

Alls starfa 130 manns hjá Fangelsismálastofnun og á meðferðarsviði starfa þrír, meðferðarfulltrúi og sálfræðingar í fjórum stöðugildum.

Þegar afplánun hefst hittir félagsráðgjafi Fangelsismálastofnunar viðkomandi og fer yfir stöðu hans og hvort hann þurfi frekari stuðning og aðkomu.

Dögg segir að í þessu viðtali séu teknar niður helstu upplýsingar um viðkomandi og félagssaga hans rakin. Eins er farið yfir heilsufar, bæði andlegt og líkamlegt. Í þessu viðtali er einnig hugað að framhaldinu og hvernig viðkomandi ætlar að nýta afplánunina og hvað taki við að henni lokinni.

Innan meðferðarsviðs er unnið að fjölmörgum verkefnum, svo sem ráðgjöf og meðferðaráætlun fanga, og þeim boðið upp á námskeið og teymisvinnu.

Að sögn Daggar er algengast að þeir sem afplána langa dóma byrji afplánun í lokuðu fangelsi en fari þaðan í opið fangelsi. Þaðan liggur leiðin á áfangaheimilið Vernd og að lokum í rafrænt eftirlit. Með rafrænu eftirliti er átt við afplánun utan fangelsis, þar sem fangi dvelur á eigin heimili eða öðrum samþykktum dvalarstað og er gert að bera ökklaband til þess að hægt sé að fylgjast með ferðum hans. 

Til þess að fá að afplána á Vernd þarf viðkomandi að vera í staðfestri virkni og geta greitt leigu. Á fundinum kom fram að leigan væri 75 þúsund krónur á mánuði. Þeir sem hafa brotið kynferðislega gegn barni sem er 15 ára eða yngra geta ekki sótt um vistun á Vernd samkvæmt samkomulagi við nágranna áfangaheimilisins í Laugardalnum.

Til þess að fara í rafrænt eftirlit þarf að uppfylla ákveðin skilyrði, en þau eru: Rafrænt eftirlit er einungis í boði fyrir þá sem hlotið hafa 12 mánaða óskilorðsbundinn fangelsisdóm eða lengri. Að fangi hafi fastan dvalarstað sem samþykktur hefur verið af Fangelsismálastofnun.

Að maki fanga, forsjáraðili, nánasti aðstandandi eða húsráðandi samþykki að hann sé undir rafrænu eftirliti á sameiginlegum dvalarstað þeirra.

Að fangi stundi vinnu eða nám, sé í starfsþjálfun eða meðferð eða sinni öðrum verkefnum sem Fangelsismálastofnun hefur samþykkt og er liður í aðlögun hans að samfélaginu á ný.

Að fangi hafi lokið afplánun á áfangaheimili Verndar eða sambærilegu úrræði með fullnægjandi hætti eða verið metinn hæfur til að nýta úrræði en ekki getað það af ástæðum sem eru ekki af hans völdum. Fangi sem hefur af þessum ástæðum ekki getað nýtt sér úrræðið skal hafa verið agabrotalaus þann tíma sem hann hefði ella nýtt það. Að fangi hafi ekki rofið skilyrði rafræns eftirlits á síðastliðnum þremur árum. Að fangi eigi að jafnaði ekki mál hjá lögreglu sem er ólokið. 

Guðmundur Ingi Þóroddsson hefur starfað að málefnum fanga um langt …
Guðmundur Ingi Þóroddsson hefur starfað að málefnum fanga um langt árabil. mbl.is/​Hari

Margir hafa ekki aðgang að öruggu húsnæði

Dögg segir að þetta geti reynst erfitt fyrir fólk þegar komi að búsetu, því margir hafi ekki aðgang að öruggu húsnæði að lokinni afplánun í fangelsi.

„Samfélagið þarf að vera meðvitað um hvað það skiptir miklu máli að einstaklingar hafi aðgang að húsnæði til að geta verið í rafrænu eftirliti,“ segir hún.

Þegar einstaklingur hefur farið yfir þessa stigskiptingu er komið að reynslulausn. Stuðningur á þessu tímabili getur skipt miklu máli, segir Dögg. Margir eiga töluvert eftir af dómi þannig að það er mikið undir en það er í höndum dómara að taka afstöðu til þess hvort reynslulausn er rofin. Ef viðkomandi brýtur skilyrði reynslulausnar verður Fangelsismálastofnun að bregðast strax við.

Stuðningur sjálfboðaliða 

Fangelsismálastofnun er í góðu samstarfi við Rauða krossinn, Samhjálp, Vinnumálastofnun og félagsþjónustuna að sögn Daggar.

Sigríður Ella Jónsdóttir, verkefnisstjóri félagsvina eftir afplánun hjá Rauða krossinum á Íslandi, kynnti starfsemi félagsvina á fundinum, en verkefni þeirra er að aðstoða fanga eftir að afplánun lýkur. Eins síðustu mánuði afplánunar. Stuðningurinn felst meðal annars í hópastarfi innan fangelsisins og einstaklings. Sjálfboðaliðar fara í fangelsin og tengjast einstaklingum sem eru í afplánun. Þeir aðstoða meðal annars viðkomandi við í að nýta sér opinber úrræði. Styðja hann í virkni. Sjálfboðaliði skuldbindur sig í ár og stuðningurinn er mjög einstaklingsbundinn. Síðan er opið hús einu sinni í viku þar sem allir þeir sem hafa lokið afplánun geta komið og spjallað og fengið stuðning og aðstoð varðandi atvinnuumsóknir og fleira. Sigríður segir að húsnæði, atvinnumál og fjárhagsstaða sé það sem allir fyrrverandi fangar spyrji um enda séu þetta atriði sem hvíli þyngst á þeim.

Samfélagsleg ábyrgð að sinna grunnþörfum

Mikilvægt er að hafa í huga að einstaklingar sem eru að koma úr afplánun hafa yfirleitt lítið á milli handanna og þurfa oft mikinn stuðning í upphafi, segir Dögg og bendir á að viðbrögð samfélagsins gagnvart föngum eru mismunandi eftir brotaflokkum. „Á kerfið að virka þannig að fólk fái annað tækifæri til að taka þátt í samfélaginu eftir afplánun?“ spurði Dögg á fundinum og bætti því við að starfsfólk Fangelsismálastofnunar teldi að svo væri en hún velti einnig upp þeirri spurningu hvort það væri þannig í raun.

„Er það ekki samfélagsleg ábyrgð að sinna grunnþörfum eftir afplánun, svo sem framfærslu, búsetu og vinnu/virkni? Við þurfum að styðja fólk aftur út í samfélagið,“ segir Dögg Hilmarsdóttir, félagsráðgjafi hjá Fangelsismálastofnun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert