Dómur Sigurðar mildaður í Landsrétti

Sigurður Kristinsson við aðalmeðferð málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Sigurður Kristinsson við aðalmeðferð málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur. mbl.is/Eggert

Landsréttur mildaði í dag dóm yfir Sigurði Kristinssyni, sem sakfelldur var fyrir tilraun til stórfellds fíkniefnalagabrots í hinu svokallaða Skáksambandsmáli. Sigurður var í Héraðdómi Reykjavíkur dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi, en dómur hans var mildaður niður í þrjú og hálft ár.

Þrír menn fengu dóm í málinu, sem varðar smygl á fimm kílóum af amfetamíni til landsins frá Spáni árið 2017. Efnin voru falin í skákmunum og send með pakka sem stílaður var á Skáksambands Íslands, sem hafði þó ekkert með málið að gera. Þegar efnin bárust til Skáksambandsins var lögregla á Spáni þó búin að komast á snoðir um smyglið og skipta út efnunum.

Landsréttur horfir til þess við ákvörðun refsingarinnar að Sigurður hafi einnig verið dæmdur í öðru máli í desember í fyrra, þá fyrir fjársvik. Þar fékk hann tuttugu mánaða skilorðsbundinn dóm og samkvæmt ákvæðum almennra hegningarlaga er skilorðshluti þess dóms nú tekinn upp og Sigurði gerð refsing fyrir bæði brotin.

Landsréttur taldi ósannað í þessu máli að Sigurður hefði fjármagnað kaupin á fíkniefnunum, en hann viðurkenndi að hafa borið kostnað af pökkun efnanna og sendingu þeirra til Íslands og þamnnig komið að fjármögnun á innflutningi þeirra.

Sigurði er gert að greiða helming áfrýjunarkostnaðar, sem nemur tæplega 1,9 milljónum króna.

Dómur Landsréttar

mbl.is