„Fórna meiri hagsmunum fyrir minni“

Hjálmar er svartsýnn á að fundur verði boðaður hjá ríkissáttasemjara.
Hjálmar er svartsýnn á að fundur verði boðaður hjá ríkissáttasemjara. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er óskiljanlegt og þetta voru ekki mannasiðir sem mér voru kenndir í æsku, að koma svona fram,“ segir Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands (BÍ) sem nú stendur í kjaradeilu við Samtök atvinnulífsins.

Hann telur að skýr verkfallsbrot hafi verið framin í verkfalli blaðamanna í dag þegar nokkrar fréttir voru birtar á milli tíu og tvö á vefsíðu mbl.is. Allir blaðamenn vefjarins lögðu niður störf á tímabilinu en samt sem áður voru fréttir birtar á vefnum. 

Samkvæmt skilningi BÍ er ekki nóg að blaðamenn leggi niður störf heldur mega fréttir ekki heldur birtast á vef þeirra fjölmiðla sem verkfallið nær til, en það gildir um vefsíður mbl.is, Vísis og Fréttablaðsins. Einnig áttu tökumenn RÚV að leggja niður störf en verktaki var fenginn til að sinna starfi tökumanns milli tíu og tvö og telur Hjálmar sömuleiðis að þar sé um brot að ræða. 

„Mér fannst þetta ganga illa. Það hryggir mig að fólk stundi verkfallsbrot,“ segir Hjálmar sem átti ekki von á brotum sem þessum. 

„Sérstaklega því ég var búinn að skrifa öllum miðlunum og óska eftir því að við myndum fara yfir framkvæmd verkfallsins svo það þyrfti ekki að koma til neins ágreinings. Ég fékk engin svör nema frá SÝN og þar fór þetta fram til fyrirmyndar. Þeir viðurkenna rétt blaðamanna til að framfylgja kröfum sínum um að vera með vinnustöðvun, það sama á við um Fréttablaðið, þar voru engir hnökrar en það var hörmulegt að horfa upp á framgöngu míns gamla vinnustaðar, Morgunblaðsins. Ég get ekki orðað það öðruvísi,“ segir Hjálmar.

Brjóti bæði fyrirmæli BÍ og SA

Hann telur verkfallsbrotin augljós. 

„Þau eru svo skýr þessi verkfallsbrot þarna á Morgunblaðinu að ég get ekki betur séð en að þeir séu að brjóta reglur um framkvæmd verkfallsins sem Samtök atvinnulífsins sendu út og ég fékk eftir óbeinum leiðum. Mér finnst þetta sýna ótrúlega óvirðingu þeirra manna sem stóðu fyrir þessum verkfallsbrotum í garð sinna samstarfsmanna. Við skulum hafa það í huga að 85% blaðamanna samþykktu vinnustöðvun og 62% tóku þátt í atkvæðagreiðslunni svo þetta er lítill minnihluti sem sættir sig ekki við lýðræðislegan rétt annarra til þess að fara að lögum í þessu landi.“

Spurður um möguleg verkfallsbrot RÚV segir Hjálmar: „Þar er mér sagt að verktaki hafi gengið í störf tökumanna í morgun á milli tíu og tvö. Ég hef kallað eftir skýringum frá RÚV, á hverju það grundvallist, ég hef líka verið í samskiptum við okkar lögmann og við munum að sjálfsögðu fara yfir þetta og fara með þessi verkfallsbrot fyrir félagsdóm og óska eftir því að fá niðurstöðu í málið fyrir næsta föstudag, þegar næsta vinnustöðvun er fyrirhuguð.“

RÚV birti fréttir á sínum vef en það var fyrirtækinu heimilt þar sem flestir sem skrifa inn á vef RÚV eru í Félagi fréttamanna eða öðrum stéttarfélögum.

Framkoman ekki til framdráttar

Hjálmar segir að vissu leyti skiljanlegt að misskilningur geti orðið í verkfalli sem hefur ekki verið framkvæmt áður og því hefði verið gáfulegra að ræða málin fyrir fram.

„Í þrígang skrifaði ég þessum fjölmiðlum og óskaði eftir því að við færum yfir framkvæmd vinnustöðvunarinnar. Auðvitað vorum við að feta dálítið nýjan stíg, það hefur ekki áður verið sett vinnustöðvun á netmiðla og efni á netmiðlum kemur eftir margvíslegum leiðum. Ég er ekki að segja að mín túlkun í þeim efnum sé sú eina rétta en hún var afstaða félagsins og ef það hefðu verið rök fyrir einhverju öðru þá hefði maður auðvitað hlustað á það og farið að lögum.“

Hjálmar segir að orðstír fyrirtækja geti beðið hnekki af framgangi sem þessum.

„Svona framkoma í garð sinna starfsmanna er ekki fjölmiðlum til framdráttar að mínu mati. Þarna er klárlega verið að fórna meiri hagsmunum fyrir minni, því miður.“

Enginn fundur hefur verið boðaður hjá ríkissáttasemjara. „Ég er mjög svartsýnn á að það verði,“ segir Hjálmar að lokum.

Tekið skal fram að blaðamaður og flest­ir aðrir blaðamenn á rit­stjórn mbl.is og Morg­un­blaðsins eru fé­lag­ar í Blaðamanna­fé­lagi Íslands.

mbl.is