Gjörbreytir orkukerfi Norðurlands

Fljótsdalsvirkjun.
Fljótsdalsvirkjun. Sigurður Bogi Sævarsson

„Það stefnir í að innan fárra ára missera verði komin upp allt önnur staða í orkumálum á Norðurlandi, frá Blöndu til Fljótsdalsstöðvar. Þá verður komið öflugt orkukerfi á þessu svæði,“ segir Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Njáll Trausti stýrði fjölmennum fundi um orkumál í menningarhúsinu Hofi á Akureyri í gær.

Meðal ræðumanna var Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Þá voru fulltrúar Landsvirkjunar, Landsnets, Íslandsstofu, Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar og orkumálastjóri á meðal ræðumanna.

Fara næst í Hólasandslínu

Spurður hvað skýri þessar umbætur nefnir Njáll Trausti framkvæmdir við Kröflulínu 3 sem nú eru hafnar.

Frá fundinum í gær.
Frá fundinum í gær. Ljósmynd/Axel Þórhallsson/Birt með leyfi

„Síðan í beinu framhaldi verður farið í Hólasandslínu 3. Síðan er að hefjast nýtt ferli við Blöndulínu 3. Það er lengra í það. Í þessari viku hafa verið haldnir opnir upplýsingafundir í Skagafirði og Hörgársveit. Það er verið að hefja það ferli. Það er því lengri tími í að Blöndulína 3 verði komin i gagnið. Innan tveggja til þriggja ára verður búið að styrkja flutningskerfi raforku frá Fljótsdalsstöð og alla leið í Rangárvelli við Akureyri. Ég geri mér síðan vonir um að Blöndulína 3 verði komin í rekstur innan i fimm til sex ára,“ segir Njáll Trausti.

Merkileg þróun

„Það kom fram á fundinum í gær að orkuframleiðsla Landsvirkjunar á norðurhluta landsins frá Blönduvirkjun að Fljótsdalsvirkjun er á pari við orkuframleiðslu fyrirtækisins á Þjórsársvæðinu.

Það er dálítið merkilegt. Fólk gerir sér ekki endilega grein fyrir þessu. Við hugsum gjarnan um Landsvirkjun sem Þjórsársvæðið en það hefur verið að byggjast upp mikil orkuframleiðsla á Norðurlandi, frá Blöndu og í Fljótsdalsstöð. Með því að tengja þetta svona saman er að myndast öflugt orkukerfi á þessu svæði sem er á pari við suðvesturhornið. Það er gríðarlega breyting fyrir Norðurland varðandi atvinnuuppbyggingu og eflingu samfélagsins sem skapa munu mikil tækifæri á næstu árum og áratugum," segir Njáll Trausti.

Njáll Trausti Friðbertsson
Njáll Trausti Friðbertsson Bragi Þór Jósefsson
mbl.is