Ísland þarf sveigjanleika

Gestir á tæknisýningu í Lissabon skoða vinnuróbota frá Boston Dynamics. …
Gestir á tæknisýningu í Lissabon skoða vinnuróbota frá Boston Dynamics. Samfélags- og tæknibreytingar komandi áratuga munu fela í sér fjölda áskorana. AFP

Framtíðarnefnd forsætisráðherra hefur skilað af sér sinni fyrstu skýrslu um þróun íslensks samfélags 2035 til 2040. Nefndin var sett á laggirnar í júní 2018 og er henni ætlað að greina hvaða tækifæri og ógnir kunna að bíða Íslands í framtíðinni með tilliti til ýmissa langtímabreytinga. Nefndina skipa ellefu alþingismenn og fer Smári McCarthy, þingmaður Pírata, fyrir hópnum.

Hann segir þörfina fyrir sveigjanleika vera rauðan þráð í skýrslunni. „Vitaskuld getur enginn spáð fyrir um framtíðina en við getum engu að síður gefið okkur vissar forsendur og dregið upp tilteknar sviðsmyndir til að vinna út frá á gagnlegan hátt. Það sem við sjáum þá er að því meiri sveigjanleika sem við getum byggt inn í kerfið, því auðveldara verður að bregðast við örum breytingum.“

Sem dæmi um í hverju þessi aukni sveigjanleiki gæti veirð fólginn nefnir Smári uppbyggingu menntakerfisins, sem í dag á það til að vilja beina fólki inn á eina tiltekna braut fyrir lífstíð. „Nú er svo komið að við erum með margskipt menntakerfi þar sem ekki allt passar saman og ekki endilega gengið út frá því að vinumarkaður nútímans kalli á að fólk bæti stöðugt við sig menntun á breytilegum sviðum,“ segir Smári en í skýrslu framtíðarnefndar er m.a. velt upp þeim möguleika að grunnmenntun og símenntun renni saman í eitt sveigjanlegt menntakerfi þar sem tæki mið af því að fólk geti bætt við sig hæfni og þekkingu, á eigin hraða, alla ævi.

Í atvinnulífinu gæti aukinn sveigjanleiki verið fólginn í því að ýta undir sem fjölbreyttastan rekstur, enda aðlögunarhæfnin á margan hátt meiri hjá mörgum smáfyrirtækjum og einyrkjum, en hjá fáum en stórum félögum. „Byggja þarf kerfið þannig upp að vöxturinn beinist ekki alfarið að þeim geira sem er vinsælastur hverju sinni, hvort sem það er sjávarútvegur, ferðaþjónusta, eða eitthvað annað, og að jafnt stór sem smá fyrirtæki fáist við alls konar verkefni.“

Smári McCarthy leiðir starf framtíðarnefndarinnar en þar eiga sæti ellefu …
Smári McCarthy leiðir starf framtíðarnefndarinnar en þar eiga sæti ellefu þingmenn úr öllum flokkum. Ljósmynd/Píratar

Breytt skattaumhverfi

Framtíðin kallar líka á vissan sveigjanleika í skattkerfinu. Smári tekur undir það með blaðamanni að það geti valdið óvissu, og þannig dregið úr sveigjanleika, ef skattaumhverfið er ekki fyrirsjáanlegt og tiltölulega stöðugt, en á móti kemur að ýmsar þær breytingar sem sjá má við sjóndeildarhringinn munu kalla á annars konar skattlagningu. „Sem dæmi um þetta má nefna vöxt verkefna-hagkerfisins (e. gig economy), sem gæti haft þau áhrif að rýra ákveðna skattstofna. Sömu sögu er að segja af aukinni alþjóðavæðingu,“ útskýrir hann. „Það sem þarf er því bæði að við séum meðvituð um hvaða hlutverki skattkerfið á að gegna, og síðan vera á tánum gagnvart stórum breytingum og róttækum tæknibyltingum sem breyta eðli samfélags og vinnumarkaðar.“  

Komið er víða við í skýrslunni og meðal þeirra áhersluatriða, verkefna og áskorana sem nefndin tiltekur má nefna bætta greiningu á mannafla- og færniþörf, góða áhættudreifingu lífeyrissjóðanna, orkuskipti og nýtingu náttúruauðlinda, vaxandi vægi sjálfvirknivæðingar og breytingar á aldurssamsetningu þjóðarinnar.

Nefndin leggur ekki til pólitískar lausnir og ekki er útkljáð í skjalinu hvaða leið væri best að fara. Smári segir framtíðarnefndina skipaða fjölbreyttum hópi fólks úr öllum flokkum og var rík áhersla lögð á að allir væru sammála um niðurstöður skýrslunnar. „Það sem vonandi gerist í kjölfarið er að Alþingi, ráðuneytin og stofnanakerfið fara að vinna með þessar framtíðarhugmyndir; að þær verði kveikjan að frekari umræðu og opni fyrir meiri langtímahugsun í íslenskri pólitík. Að frekar en að festast í því að slökkva elda og glíma við vandamál líðandi stundar verði líka hugað að stóra samhenginu og reynt að búa í haginn fyrir áskoranir komandi ára með betri stefnumótun og löggjöf í dag.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert