Leikreglurnar í verkföllum alveg skýrar

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA. mbl.is/​Hari

„Reglurnar í þessum efnum eru alveg skýrar. Verkfall nær til félagsmanna stéttarfélags sem sinna tilteknum störfum. Á þetta hefur margoft reynt og það nær ekki til annarra.“

Þetta segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í samtali við mbl.is vegna þeirrar yfirlýsingar Hjálmars Jónssonar, formanns Blaðamannafélags Íslands, í frétt Ríkisútvarpsins, að verkfallsbrot hafi verið framin á mbl.is og hjá Ríkisútvarpinu þegar til vinnustöðvunar kom á fjórum netmiðlum á milli klukkan 10 og 14 í dag.

„Þessi túlkun hefur verið staðfest í nokkrum dómum félagsdóms. Eðli málsins samkvæmt eiga félagar í öðrum stéttarfélögum að sinna sínum störfum eins og áður og síðan er stjórnendum heimilt að ganga í störf undirmanna sinna í verkfalli. Um þetta hafa fallið nokkrir hæstaréttardómar,“ segir Halldór Benjamín.

Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands.
Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Spurður hvort hann vísi þar með þeim orðum Hjálmars á bug að verkfallsbrot hafi átt sér stað segir Halldór: „Reglurnar eru alveg skýrar. Svo lengi sem staðið hefur verið að málum með þessum hætti þá er ekki um að ræða verkfallsbrot. Það er alveg skýrt lögum samkvæmt.“

Halldór segir mikilvægt að farið sé eftir þeim leikreglum sem gildi um vinnustöðvanir og SA brýni fyrir sínum félagsmönnum hverjar þær séu og þeim beri að hlíta. Að sama skapi séu þær leikreglur alveg skýrar eins og fjöldi dómafordæma staðfesti.

Spurður um þau ummæli Hjálmars að leitað verði til félagsdóms vegna málsins segir Halldór: „Ég virði að sjálfsögðu rétt Blaðamannafélagsins til þess að skjóta málum til félagsdóms en ráðlegg þeim eindregið að kynna sér þessi dómafordæmi sem ég vísa til áður en þeir gera það.“

Tekið skal fram að blaðamaður og flest­ir aðrir blaðamenn á rit­stjórn mbl.is og Morg­un­blaðsins eru fé­lag­ar í Blaðamanna­fé­lagi Íslands.

mbl.is