Sáttasemjari miðli málum milli kennara og skólastjóra

Fjölbrautaskóli Vesturlands á Akranesi. Mynd úr safni.
Fjölbrautaskóli Vesturlands á Akranesi. Mynd úr safni.

Sérstakur ráðgjafi og sáttasemjari hefur verið ráðinn til að miðla málum milli kennara og skólastjóra Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi.

Þetta kemur fram í frétt á vef Kennarafélags Íslands, en þar var greint frá því fyrir helgi að kennarar við fjölbrautaskólann hefðu hafnað samstarfi við núverandi skólameistara og sagst munu einvörðungu „sinna kennsluskyldum og samstarfi við nemendur þar til nýr skólameistari“ hafi verið skipaður. 

Í fréttinni sem birt var á vef KÍ í dag segir að þeir Guðjón Hreinn Hauksson, formaður Félags framhaldsskólakennara, og Ægir Karl Ægisson, formaður Félags stjórnenda í framhaldsskólum, vilja láta það berast að sérstakur ráðgjafi og sáttasemjari hafi „verið ráðinn til þess að miðla málum milli aðila að stofnanasamningi Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi.“

Segjast formennirnir fagna þessu skrefi og „vilja hrósa kennurum, stjórnendum og skólameistara skólans fyrir að halda fagmennskunni í forgrunni og gera nú aftur atlögu að samningum eftir erfiðar deilur“.

Þeir voni þá einnig að góður árangur hljótist af sáttaumleitunum, um leið og því beri að fagna að óvissu um stjórnun skólans á næsta skipunartímabili skólameistara fari að ljúka. Þegar sé farið að taka viðtöl við umsækjendur um stöðu skólameistara og því hljóti upplýsingar um ráðningu næsta skólameistara FVA að birtast fljótlega.

mbl.is