Guð er ekki á Spotify

Einar Már Guðmundsson rithöfundur á vinnustofu sinni í Grafarvoginum.
Einar Már Guðmundsson rithöfundur á vinnustofu sinni í Grafarvoginum. Haraldur Jónasson/Hari

Gamla góða vínilplatan fær hið endanlega heilbrigðisvottorð í nýrri ljóðbók Einars Más Guðmundssonar, Til þeirra sem málið varðar; sjálft almættið er að þeyta skífum á himnum. Og hlusta á Stairway to Heaven og fleiri sígild lög.

„Já, já,“ segir Einar Már og hlær. „Grammófónninn festi sig miklu betur í sessi og á dýpri rætur í hefðinni en sú tækni sem á eftir honum kom. Það er því eðlilegt að guð setji plötu á fóninn. Ekki er hann á Spotify!“

– Það er mikið um flug í bókinni sem er svo sem ekkert nýtt hjá þér. Og fugla. Meira að segja er lagt til að fugl og skáld skipti um hlutverk.

„Já, en þú veist ekki hvort leggur það til, skáldið eða fuglinn,“ segir hann og brosir. „Ég hefði átt að verða flugmaður. Ætli þetta sé ekki eitthvað úr skáldskapnum og svo tengist það líka tímunum sem maður var alinn upp á. Flug hefur alla tíð heillað mig og ekkert hefur dregið úr því með árunum. Sama má segja um fuglana; það er eitthvað við atferli þeirra og frelsið sem getur varpað ljósi á atferli okkar mannanna. Það er póesía í fluginu eins og sundinu. Það er margt líkt með því að fljúga og kafa.“

Að batna og versna

– Klukkan er korter í upphafið. Klukkan er korter í endalokin, segirðu. Hvað ertu að fara þarna?

„Ég er að velta fyrir mér hvar við stöndum og þegar ég segi að heimurinn sé að batna hef ég rétt fyrir mér og líka þegar ég segi að hann sé að versna. Við lifum í svo miklum þversögnum og allt í kringum okkur eru menn að slá öllu mögulegu föstu. Við þær aðstæður gerist hinn skáldlegi hugur reikull og veit ekki hvar hann á að staðsetja sig.“

– Hvernig verða ljóðin til?

„Ljóð verða til á löngum tíma. Þau eru hér og þar; í kollinum á mér, á blaði, í tölvunni. Skyndilega fær gömul setning merkingu og maður fer að vinna með hana í samræðum við tímann sem er, var og jafnvel verður.“

– Það eru þrettán ár síðan þú sendir síðast frá þér ljóðabók, yrkirðu samt jafnt og þétt?

„Já, ég er alltaf með ljóð til hliðar, auk þess sem sagnaskáldskapurinn hefur líka ljóðræna eiginleika. Ljóðið er einhvern veginn allt í öllu, samanber söguljóðið, epos. Þetta var upphaflega allt það sama. Það býr hugmyndaauðgi í ljóðunum – þessi milliliðalausu átök við veruleikann.“

– Við lifum á skrýtnum tímum. Er póstmódernisminn búinn að ná tökum á tilveru okkar?

„Póstmódernismi er ekki beint stefna, heldur sitúasjón, og mörg kerfi byggjast á því. Við höfum ekki lengur neitt eitt haldreipi; því sem á að vera traust treystir ekki nokkur maður lengur og þar fram eftir götunum. Um leið á hið fornkveðna við: The Times They Are A-Changin’. Það er bæði ástæða til að vera bjartsýnn og svartsýnn. Valdhafarnir eru sterkari en oft áður og fyrir vikið er vanmáttur almennings meiri. Valdhafarnir voru hræddari 1968 en á sama tíma allt á blússandi siglingu í alls konar réttinda- og frelsisbaráttu. Það fór út um allar koppagrundir. Eigi að síður er ákveðin einsleitni í því sem menn kalla meginstrauma. Þannig kom ræða Jonas Eika, handhafa bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, mörgum rosalega á óvart um daginn og engir urðu eins hissa og stjórnmálamennirnir. Þessi viðhorf heyrast ekki lengur. Fyrir tuttugu árum þóttu viðhorf Piu Kjærsgaard [fyrrverandi formanns Framfaraflokksins í Danmörku] ekki húsum hæf en verða svo að talsmáta stjórnmálaflokka. Svo kemur 28 ára rithöfundur og segir eitthvað sem ætti ekki að koma neinum á óvart og allt verður vitlaust. Eins og alltaf þá eru bókmenntirnar spegill á hugsunarháttinn á hverjum tíma.“

Sýnishorn af ljóðabókum Einars Más; þær fyrstu komu út 1980.
Sýnishorn af ljóðabókum Einars Más; þær fyrstu komu út 1980. Haraldur Jónasson/Hari


Forðast að skilgreina mig

– Þú varst mjög áberandi í þjóðmálaumræðunni eftir hrun. Skilgreinir þú þig sem róttækling?

„Kannski forðast ég nú að skilgreina mig,“ svarar hann brosandi. „Auðvitað var margt í loftinu í þjóðfélaginu sem ég ólst upp í, róttækni og fleira, en síðan verður skáldskapurinn mitt viðhorf og mín pólitík, og líklega er hún róttæk þó að ég eigi alveg mína íhaldssemi. Það hefur í grunninn ekkert breyst; eftir hrunið notaði ég það sem ég kunni úr bókmenntunum til að lýsa þjóðfélaginu eins og það blasti við mér. Ég fann til skyldu í þeim skilningi að mér hefur tekist að fúnkera sem skáld og langaði að gefa eitthvað til baka. Á þessum tíma voru stjórnmálamennirnir oft eins og leikarar og erfitt var að fá mynd af hlutverkum þeirra. Sjálfur hef ég lært bókmenntir og sögu og lesið mikið um þjóðfélagsmál og gæti ekki skrifað sagnaskáldskap ef samfélagið brynni ekki á mér. Þegar ég tjái mig um þjóðmál finnst mér ég ekki vera að gera neitt annað en í skáldskapnum. Aðrir upplifðu þetta kannski sem pólitísk skrif, sem þau auðvitað voru, en hvað er pólitík? Er ekki allt pólitík? Ég var bara að lýsa veruleikanum.“

Nánar er rætt við Einar Má í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert